17.8.2017 9:09

Hjörleifur og hvíti húsgaflinn

Eins og jafnan áður þegar mál sem varða Reykjavíkurborg verða umdeild er ógjörningur að fá á hreint hver tók ákvörðunina um að afmá sjómannsmyndina af húsgaflinum.

Það veldur töluverðu uppnámi, að minnsta kosti á Facebook, að Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. ráðherra, gerði athugasemd vegna myndar af sjómanni sem var máluð á gafl Skúlagötu 4.

Hjörleifur kannaði hvernig staðið var að töku ákvarðana um sjómannsmyndina og taldi að þar hefði verið pottur brotinn hjá borgaryfirvöldum. Nýlega var húsgaflinn málaður hvítur að nýju og er Hjörleifi kennt um það. Ráðist er á hann af mikilli heift og hann meðal annars sakaður um óvild í garð sjómanna!

Eins og jafnan áður þegar mál sem varða Reykjavíkurborg verða umdeild er ógjörningur að fá á hreint hver tók ákvörðunina um að afmá sjómannsmyndina af húsgaflinum.

Á sínum tíma kostaði tónlistarhátíðin Iceland Airwaves málun sjómannsmyndarinnar og átti hún að prýða vegginn tímabundið. Hvernig framtakið fellur að tilgangi hátíðarinnar og innan fjárhagsramma hennar er óútskýrt eins og svo margt í þessu máli.

Nú segir stjórnandi Iceland Airwaves að ekki hafi verið rætt við sig áður en myndin var afmáð svo að varla verður reikningur húsamálarans sendur til hans. Í umræðum um brotthvarf myndarinnar hefur endurskoðandi vakið máls á því að kanna eigi hvert húsamálarinn sendi reikning sinn. Líklegast sé að sá sem borgi hann hafi tekið ákvörðun um að gaflinn skyldi málaður hvítur.

Rannsóknarblaðamennskan í þessu máli snýst ekki um að rekja reikning húsamálarans heldur að finna út hvers vegna Hjörleifur Guttormsson var að skipta sér að málinu þótt myndin hafi blasað við honum dag hvern sem nágranna hennar. Þá er lýst undrun yfir að einhver yfirvöld hafi tekið mark á honum og talið að rekja megi það til þess að hann hafi setið á alþingi og í ríkisstjórn.

Líklegasta skýringin á að tekið var mark á Hjörleifi og yfirvöld sáu að sér er sú að athugasemdir hans vegna málsins hafi verið á rökum reistar Hann hafi fært sterk rök fyrir máli sínu og kynnt þau á réttan hátt.

Að borgaryfirvöld taki við sér þegar þeim eru kynnt rökstudd mál á þennan hátt þykir mörgum ótrúlegt miðað við deilurnar um alla borg vegna skipulagsákvarðana. Má í því sambandi sérstaklega benda á aðförina að Víkurkirkjugarði. Þeir sem vilja vernda hann ættu að fara í smiðju til Hjörleifs Guttormssonar og fá hjá honum töfrasprotann sem dugði til að gaflinn á Skúlagötu 4 var málaður hvítur án þess að nokkur viti hver ákvað það.