20.10.2022 11:02

Hjaðningavíg í Samfylkingu

Þetta er ekki aðeins köld kveðja til Sighvats heldur einnig til leiðtoga Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, Guðmundar Árna.

Hjaðningavíg hverfa ekki í Samfylkingunni þrátt fyrir landsfund sem ætlað er einum rómi að staðfesta valdatöku Kristúnar Frostadóttur. Til að minna á forna frægð Alþýðuflokksins ákvað Guðmundur Árni Stefánsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, sem hefur áratugum saman gegnt formennsku í Alþýðuflokknum að gefa kost á sér sem varaformaður Kristrúnar. Hann kallar sjálfan sig „gamlan hund“ í stjórnmálum og telur sjálfgefið að hann verði jafn óumdeildur sem varaformaður og Kristrún sem formaður.

Sighvatur Björgvinsson, samherji og samstarfsmaður Guðmundar Árna í ríkisstjórn fyrir 30 árum, skrifaði grein í Fréttablaðið 11. október 2022 þar sem hann gerði upp við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur (ISG), fyrrv. formann Samfylkingarinnar, vegna skrifa hennar um Jón Baldvin Hannibalsson. fyrrv. formann Alþýðuflokksins, sem einnig var í ríkisstjórn með Sighvati og Guðmundi Árna fyrir þremur áratugum.

Skilja mátti á Sighvati að Ingibjörg Sólrún ætti ekkert inni hjá þessum gömlu krötum, hún hefði í raun eyðilagt Samfylkinguna.

336723.2e16d0ba.fill-1200x630-c100Þess var minnst árið 2016 að Alþýðuflokkurinn hefði orðið (varð?) 100 ára. Nú hefur verðandi formaður Samfylkingarinnar tekið rós flokksins í merki sitt en sleppt hnefanum. Hann er þó enn á lofti innan dyra eins og sjá má í blaðagreinum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi, skrifar grein í Fréttablaðið í dag (20. okt.) til varnar Ingibjörgu Sólrúnu og konum í Samfylkingunni. Hún segir meðal annars:

„Margt má segja um varnarmúrinn sem gamlir kratar hafa slegið upp í kringum fyrrverandi formann Alþýðuflokksins og kannski ber okkur að virða þeim til vorkunnar að þeir eigi ekki samleið með samtímanum.“

Þetta er ekki aðeins köld kveðja til Sighvats heldur einnig til leiðtoga Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, Guðmundar Árna. Yfirlýstur tilgangur Þórunnar er þó að sýna að Sighvatur kunni ekki að fara rétt með atkvæðatölur eða hann fari vísvitandi rangt með þær til að gera hlut Ingibjargar Sólrúnar sem verstan.

Sighvatur segir að fylgi Samfylkingarinnar hafi verið 32% þegar Ingibjörg Sólrún bolaði Össuri Skarphéðinssyni úr formannssætinu árið 2005 en ekki nema 16,8% í þingkosningum 2007 undir forystu Ingibjargar Sólrúnar.

Þórunn segir á hinn bóginn: „Árið 2007 var hún (ISG) orðin formaður flokksins og þá fékk Samfylkingin 26,8% fylgi. Samfylkingin beið ekki afhroð undir forystu Ingibjargar Sólrúnar.“

Þetta er rétt hjá Þórunni það varð ekki fyrr en Jóhanna Sigurðardóttir hafði verið forsætisráðherra í rúm fjögur ár, árið 2013, sem fylgi við Samfylkinguna hrundi. Mátti meðal annars rekja það til hvernig hún hélt á stjórnarskrármálinu en Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, minnist þess í Morgunblaðinu í dag að rétt 10 ár eru liðin frá undarlegustu þjóðaratkvæðagreiðslu Íslandssögunnar sem átti að leiðbeina Jóhönnu í stjórnarskrármálinu en leiddi það út í skurð undir formennsku nýs fólks í Samfylkingu og Vinstri grænum.

„Þjóðin hafði samið sér stjórnarskrá,“ segir Helga Vala og umgengst sannleikann eins og Sighvatur þegar hann les í kosningaúrslitin 2007. Er sama hvert litið er til fortíðar Samfylkingarinnar alltaf þykir nauðsynlegt að hagræða sannleikanum.