Hitastig á Íslandi í 100 ár
Á þessum síðum hefur ekki verið rætt um loftslagsmál enda erfitt að henda reiður á öllu því sem lagt er til grundvallar í umræðunum. Hér þó vitnað til greinar Gunnlaugs H. Jónssonar vegna þess að hún er reist á tölum sem liggja fyrir og ekki verða hraktar.
Gunnlaugur H. Jónsson birti grein í Fréttablaðinu fimmtudaginn 13. febrúar undir fyrirsögninni: Þróun hitastigs í eina öld.
Hann lítur yfir farinn veg í tilefni þess að 1. janúar 2020 voru 100 ár liðin frá því að Veðurstofa Íslands var stofnuð. Fjallar Gunnlaugur um þróun hitastigs í eina öld í höfuðstaðnum Reykjavík auk Stykkishólms og Stórhöfða sem eiga sér lengsta sögu samfelldra hitamælinga á Íslandi. Þá hugar hann að því hvað gerist ef þróunin verður óbreytt næstu 100 árin. Hann segir:
„Nú telja margir að mesta ógnin sem steðjar að jörðinni og mannkyni sé hlýnun jarðar. Í töflunni [sem hér er birt og var í grein Gunnlaugs] eru sýndar hallatölur fyrir bestu línur sem falla að hitaferlum síðustu 100 ára. Hallatölurnar sýna árlega hlýnun sem nemur þúsundustu hlutum úr gráðu á ári. Á einni öld nemur hlýnunin 0,25°C á Stórhöfða, 0,36°C í Reykjavík og 0,57°C í Stykkishólmi. Hlýnun á einni öld er því minni en sem nemur sveiflu í meðalárshita (staðaðalfrávik) þessara stöðva. Haldi þessi þróun í veðurfari áfram óbreytt næstu 100 árin til 2120 má vænta þess að meðalhiti í Reykjavík fari úr 4,8°C og verði 5,4°±0,7°C árið 2120. Mannvirki og malbik í stórborginni London valda því að hiti er þar 2-3°C hærri en í sveitunum í kring. Uppbygging höfuðborgarsvæðisins og aukin trjárækt mun líklega hækka væntan hita í Reykjavík í framtíðinni um allt að eina gráðu til viðbótar. Stórhöfði er ekki líklegur til þess að byggjast í framtíðinni og er því einstakur staður á Íslandi til þess að mæla langtímabreytingar á hitastigi enda með mælingar frá 1869. Þær mælingar sýna að hlýnunin var mun hraðari á tímabilinu 1869-1919 (0,71°C á öld) en á liðnum hundrað árum eftir að koltvísýringur í andrúmsloftinu fór að aukast verulega.“
Á þessum síðum hefur ekki verið rætt um loftslagsmál enda erfitt að henda reiður á öllu því sem lagt er til grundvallar í umræðunum. Hér þó vitnað til greinar Gunnlaugs H. Jónssonar vegna þess að hún er reist á tölum sem liggja fyrir og ekki verða hraktar. Hitastig á þeim þremur stöðum sem hann nefnir hefur verið mælt af kostgæfni í 100 ár.
Bið lesendur að taka viljann fyrir verkið þegar þeir skoða þessa ljósmynd af skýringarmynd Gunnlaugs H. Jónssonar en hann segir um hana:
„Meðfylgjandi mynd sýnir þróun hitastigs á ofangreindum þrem stöðum síðustu 100 árin. Á myndinni má sjá mikla hlýnum fyrstu 14 árin frá 1919 til 1933. Eftir það stóð hitinn nokkurn veginn í stað til ársins 1960. Á þessu hlýja tímabili fór ársmeðalhitinn á Stórhöfða fimm sinnum yfir sex gráður. Eftir 1960 hefur hann aðeins þrisvar farið yfir sex gráður á Stórhöfða og einu sinni í 6,1°C í Reykjavík árið 2003 en það var hlýjasta árið á 100 árum. Meðalhiti stöðvanna þriggja var 5,9°C það ár. Næst hlýjasta árið var árið 1941 þegar hitinn var að meðaltali 5,8°C. Það liðu því 62 ár það til meðalhitinn frá 1941 var sleginn um 0,1°C.“