31.12.2023 10:06

Hetjur gegn harðstjórn

Fréttir frá Rússlandi, Íran, Norður-Kóreu og Kína eru þessu marki brenndar. Í engu þessara ríkja mega þeir sín nokkurs sem einræðisherrarnir þola ekki.

Á árinu 2023 birtust hér 10 umsagnir um bækur sem ég skrifaði í Morgunblaðið. Af þeim fékk ein fimm stjörnur. Bókin heitir Litháarnir við Laptevhaf eftir Daliu Grinkevičiūtė. Þýðendur eru Geir Sigurðsson og Vilma Kinderyté. Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2022. Kilja, 205 bls.

Dalia Grinkeviciute (1927-1987) frá Litháen var læknir og rithöfundur. Hún ritaði minningarbrot um bitra reynslu sína sem unglingur af grimmd og harðræði í sovéskum fangabúðum í Norðaustur-Síberíu við Laptevhaf, á mörkum hins byggilega heims.

Dalia, móðir hennar og bróðir voru í fyrsta hópi Litháa sem var skipað, án nokkurs tilefnis af þeirra hálfu, að yfirgefa heimili sitt og fara um borð í járnbrautarlest sem flutti þau í júní 1941 eins og skepnur norður og niður í orðsins fyllstu merkingu. Niðurlæging fólksins varð algjör þar sem það var látið hírast í hreysum yfir heimskautaveturinn í kulda og myrkri.

Frá fyrsta degi var Dalia staðráðin í að halda lífi og komast aftur til Litháens og tryggja að móðir hennar fengi aftur að sjá ættland sitt. Henni tókst það árið 1949. Móðir hennar lést í Litháen áður en Dalia var handtekin að nýju 1951 og flutt aftur til Síberíu.

Hagur Daliu vænkaðist eftir dauða Stalíns 1953 og hún fékk að fara til Omsk til að læra læknisfræði. Hún lauk síðan læknanámi í gamla heimabænum sínum Kaunas í Litháen árið 1960 (33 ára) og varð heimilislæknir og geislafræðingur á sjúkrahúsi smábæjarins Linkuva til 1974 þegar KGB svipti hana atvinnuréttindunum og læknisbústaðnum.

Texti brotanna er beinskeyttur og áhrifamikill í einfaldleika sínum. Í fáum orðum og markvissum setningum er brugðið upp mynd af hroðalegum örlögum og dauða fjölda manna á auðnum túndrunnar.

Skapgerð einstaklinga verður ljóslifandi án margra orða og ömurleikinn allur verður næstum áþreifanlegur með óþrifum sínum og ólykt.

Nú í lok árs 2023 er minnt á þessa bók að nýju. Hún á erindi sem áminning til samtímans um hörmuleg örlög einstaklinga sem verða, oft án nokkurs tilefnis af þeirra hálfu, fórnarlömb grimmdarlegrar harðstjórnar.

Fréttir frá Rússlandi, Íran, Norður-Kóreu og Kína eru þessu marki brenndar. Í engu þessara ríkja mega þeir sín nokkurs sem einræðisherrarnir þola ekki.

Frásögn Daliu er ákall um mannúð. Hún hefur algilda skírskotun á öllum tímum.

1869428.max-1200x900Narges Mohammadi, Nóbelsfriðarverðlaunahafi 2023.

Fanginn Narges Mohammadi (51 árs) fékk friðarverðlaun Nóbels í ár fyrir baráttu sína gegn kúgun kvenna í Íran og fyrir mannréttindum og frelsi öllum til handa. Hún hefur að mestu setið í fangelsi undanfarin 20 ár, oft í einangrun. Hún hefur verið handtekin þrettán sinnum og dæmd fimm sinnum í samtals 31 árs fangelsi fyrir að dreifa áróðri gegn ríkinu. Börn sín hefur hún ekki séð í átta ár en frá 2012 hafa þau búið sem flóttamenn í Frakklandi með föður sínum. Þau tóku á móti friðarverðlaununum í Osló nú 10. desember.

Með virðingu fyrir þeim sem láta harðstjóra ekki kúga sig er árið 2023 kvatt.

Ég þakka lesendum mínum samfylgdina á árinu!