6.6.2019 12:12

Hetjudáða minnst eftir 75 ár

Athafnir hafa farið fram með miklum hátíðarbrag og þátttöku æðstu manna viðkomandi þjóða auk margra gamalla hermanna sem tóku þátt í innrásinni.

Minningarathafnirnar í tilefni af því að 75 ár eru liðin frá því að bandamenn réðust til atlögu við nasista í Normandie í Frakklandi eru áhrifamiklar. Í gær (5. júní) í Portsmouth í Englandi og í dag í Normandie í Frakklandi.

Liðsafli bandamanna var mikill við landgönguna: 6.939 skip, 156,177 hermenn – 133.000 gengu á land á fimm stöðum: 58,000 Bandaríkjamenn á Utah og Omaha ströndunum, 54,000 Bretar á Gold og Sword ströndunum og 21.000 Kanadamenn á Juno strönd. Þá voru 23.000 hermenn (13.000 Bandaríkjamenn og 10.000 Bretar) sendir í fallhlífum eða svifflugum til Normandie eða Cotentin-skaga.

5472Forsetar Bandaríkjanna og Frakklands heilsa gömlum hermönnum sem tóku þátt í ínnrásinni á Normandie.

Sjöundi her Þjóðverja, um 150.000 menn, var dreifður um allan Normandie-skagann um 50.000 þýskir hermenn voru til varnar þar sem bandamenn gengu á land. Þýski flugherinn var veikur á þessum slóðum því að átökin í Rússlandi kröfðust nærveru hans.

Á einum sólarhring 6. júní 1944 fóru 11.500 flugvélar bandamanna til árása á Frakkland: 5.000 orrustuvélar, 3000 sprengjuvélar, 3500 svifflugur. Næstum 12.000 tonnum af sprengjum var varpað á skotmörk á einum degi.

Margir almennir borgarar týndu lífi á þessum fyrsta sólarhring um 3.000 í Normandie.

Á innrásardaginn féllu um 4,400 hermenn í liði bandamenn. Mannfallið var mest um 4.000 menn hjá Bandaríkjamönnum á Omaha-ströndinni. Um 9.000 manns særðust eða týndust.

Þessar tölur segja allar sína sögu og í Normandie er efnt til minningarathafna í grafreitum hermanna.

Athafnir hafa farið fram með miklum hátíðarbrag og þátttöku æðstu manna viðkomandi þjóða auk margra gamalla hermanna sem tóku þátt í innrásinni. Líklega er þetta síðasta stórafmælið af þessu tagi sem þessir karlar á tíræðisaldri sækja, fólkið af minni kynslóð eins og Elísabet II. Bretadrottning komst að orði í Portsmouth í gær.

Hátíðarhöldin hafa aðra hlið. Þau eru áminning um gildi þess að þjóðir standi saman gegn uppgangi öfgaríkja og einræðisherra. Á það er bent að Hitler hefði aldrei ráðist inn í Pólland hefði hann vitað að árásin jafngilti árás á Bandaríkin.

Reynslan af síðari heimsstyrjöldinni lagði grunn að alþjóðakerfinu eins og það er nú á tímum, Sameinuðu þjóðunum, NATO, Evrópuráðinu og Evrópusambandinu.

Fórnirnar sem voru færðar í síðari heimsstyrjöldinni verða til einskis gleymi menn gildi þess að þjóðir vinni saman með frjálsum viðskiptum og sameiginlegum vörnum. Engir eiga meira undir í því efni en smáþjóðir. Þess vegna ber okkur Íslendingum ekki síður en öðrum þjóðum að minnast þess með virðingu og þökk sem gerðist þennan dag fyrir 75 árum í Normandie í Frakklandi.