14.4.2019 10:41

Hernaðarlistin eftir Sun Tzu á íslensku

Í bókinni gætir að sjálfsögðu taóisma. Sumir segja að hana megi lesa sem leiðsögn um gildi hans í mannlegum samskiptum.

Bókaútgáfan Ugla sendi nýlega frá sér litla en heimsfræga bók. Í fyrsta sinn hefur bókin Hernaðarlistin eftir Sun Tzu verið þýdd á íslensku. Brynjar Arnarson gerir það úr ensku en eins og Jakob F. Ásgeirsson útgefandi segir í stuttum formála bókarinnar hafa margar þýðingar á ritinu komið út á enskri tungu. Kínverski textinn býður upp á ýmsar túlkanir.

Bókin er ekki löng, 118 bls. í litlu handhægu broti. Höfundurinn Sun Tzu var uppi fyrir um það bil 2.500 árum og þá skráði hann þessi ráð sín um hernað eftir að hafa stundað hann sjálfur sem hershöfðingi.

Index_1555238409622Sun Tzu

Í bókinni gætir að sjálfsögðu taóisma. Sumir segja að hana megi lesa sem leiðsögn um gildi hans í mannlegum samskiptum. Til dæmis er þessi texti í 11. kafla af 13 nefndur til marks um það:

„Það er hlutverk hershöfðingjans að vera alskýr og óræður, óhlutdrægur og skapstillur. Hann þarf að geta haldið fyrirætlunum sínum leyndum fyrir liðsforingjum sínum og hermönnum. Hann breytir aðferðum sínum og áformum svo að ómögulegt sé að vita hvað hann ætlist fyrir. Hann flytur herbúðir sínar og fer krókaleiðir með herinn svo að ekki sé hægt að reikna út stefnu hans.“

Þetta minnir á frásagnir af leyndinni sem hvíldi yfir meisturum sem menn leituðu til af því að þeir voru taldir búa yfir meira innsæi en aðrir og gátu því skynjað strauma mannlegrar hegðunar af mikilli næmni og nýtt sér til góðs eða ills.

Í bókinni Hernaðarlistinni eru veitt ráð um hvernig á að ná markmiði sem menn setja sér. Í upphafi 3. kafla segir:

„Í stríði er alla jafna best að ná ríki ósködduðu; að leggja það í rúst er síðri kostur. Að taka allan her óvinarins til fanga er betra en að eyða honum; að taka herdeild óskaddaða, hersveit eða liðsveit, er betra en að eyða þeim. En að sigra hundrað sinnum í hundrað orrustum er ekki æðsta stig herkænsku. Að buga óvininn á vopnaviðskipta, það er snilld.“