Herflotamál á Atlantshafi
Þróunin á undanförnum árum minnir á ástandið eins og það var í kalda stríðinu þótt öll hernaðarumsvif séu nú á lægri nótum.
Bandaríski flota- og herfræðingurinn Magnus Nordenman, höfundur bókarinnar The New Battle for the Atlantic, sem kom út í fyrra, flutti hádegisfyrirlestur á vegum Varðbergs í sal Þjóðminjasafnsins fimmtudaginn 27. febrúar. Í upphafi máls síns sagði hann að í veðri eins og var í Reykjavík í þann mund sem fyrirlesturinn hófst hefði öllu verið lokað í Washington DC og skólabörnum skipað að halda sig heima.
Nordenman sótti málþing sem Varðberg efndi til haustið 2016 til að minnast að 10 ár voru liðin frá því að bandaríska varnarliðið hvarf af landi brott. Hann sagði að koma sín hingað þá hefði átt mikinn þátt í að hann réðst í að rita bók sína. Þá hefði hann fyrir alvöru leitt hugann að breytingunum sem urðu á Norður-Atlantshafi eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga og eitt hefði síðan leitt af öðru.
Magnus Nordenman brá upp þessari mynd til að sýna drægi nýrra rússneskra stýriflauga á norðurslóðum.
Þróunin á undanförnum árum minnir á ástandið eins og það var í kalda stríðinu þótt öll hernaðarumsvif séu nú á lægri nótum. Flotastyrkur Rússa er mun minni en þá og þeir hafa til dæmis ekki burði til að beita herflota til að ráðast á siglingaleiðir yfir Atlantshaf. Á hinn bóginn ráða þeir yfir hátæknilegri vopnum og þar skipta langdrægar stýriflaugar þeirra sköpum en þeim má skjóta úr kafbátum, af herskipum og úr flugvélum.
Hér birtist ein af myndunum sem Nordenman notaði til skýringar máli sínu og sýnir drægi rússnesku stýriflauganna. Meginkenning hans er að þetta séu í raun hættulegustu vopn Rússa á norðurslóðum gegn nágrönnum þeirra og norðurhluta Evrópu. Með því að hóta að beita kynnu Rússar að telja sér fært að ná fram pólitískum vilja sínum. Flaugum af þessari gerð var beitt gegn skotmörkum í Sýrlandi, meðal annars frá kafbáti sem úr rússneska Norðurflotanum sem siglt var frá Kólaskaga við austurlandamæri Noregs í Miðjarðarhaf.
Nordenman benti á að vegna breyttra aðstæðna á Norður-Atlantshafi og í ljósi umsvifa Rússa á norðurslóðum hefði verið gripið til gagnaðgerða á vegum NATO. Þar væru Bandaríkjamenn, Bretar og Norðmenn fremstir í flokki og aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli væru einnig til marks um þessar breytingar. Hann taldi eðlilegt að fleiri þjóðir ættu aðild að þessum gagnaðgerðum og nefndi meðal annarra Frakka, Þjóðverja og Hollendinga.
Bogi Ágústsson, fréttamaður sjónvarpsins, tók viðtal við Magnus Nordenman að loknum fyrirlestri hans og má sjá það hér .