15.10.2020 9:50

Hentistefna Viðreisnar

Hentistefna þeirra sem sögðu skilið við Sjálfstæðisflokkinn vegna ESB-aðildar er alkunn. Þorsteinn kýs að bregða aðeins ljósi á þann hluta þessarar sögu sem hentar honum.

Fyrir hrun ræddi ég 111. grein í sáttmála Evrópusambandsins eins og sjá mátti til dæmis í Morgunblaðinu 16. júlí 2008. Þar stóð í upphafi greinar minnar:

„Nokkrar umræður hafa orðið um hvort unnt sé að semja um evrumál við Evrópusambandið (ESB) án aðildarviðræðna.

Meginniðurstaða mín er, að 111. gr. 3 töluliður sáttmála Evrópusambandsins (Treaty of the European Community TEC) heimili ráðherraráði ESB að fengnum meðmælum framkvæmdastjórnarinnar og eftir samráð við evrópska seðlabankann að semja við þriðja ríki um það, sem í greininni er nefnt „monetary regime or foreign-exchange regime matters“, þ.e. peninga- og gjaldeyrismál. Samningar samkvæmt þessum tölulið binda stofnanir ESB, evrópska seðlabankann og aðildarríki ESB. Samningana þarf ekki að bera undir þjóðþing aðildarríkja ESB til fullgildingar.

Á þessum grunni hefur ESB samið um evruaðild við San Marínó, Páfagarð, Mónakó og Andorra. Vissulega á annað við um þessi ríki en Ísland, þegar kemur að stjórnmálaröksemdum fyrir slíkum samningum. Sömu lagarök gilda hins vegar um samningsheimild ESB og ef samið yrði við Ísland. Lögheimildin breytist ekki, þótt stjórnmálarökin breytist.“

Ég vakti máls á þessu lagalega atriði en mig skorti hagfræðilega þekkingu til að leggja mat á hvort skynsamlegt væri að taka upp evru.

Við hrunið óx ESB-aðildarsinnum ásmegin. Þeir töluðu niður allt sem þeir töldu standa í vegi fyrir að aðildarstefna þeirra næði fram að ganga. Boðað var að án aðildar yrði engin evra. Sendiherra ESB á Íslandi gekk í lið með þeim fyrir þingkosningarnar í apríl 2009 og sagði ESB-aðild ótvíræða forsendu evru-aðildar. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG flutti síðan tillögu á þingi um ESB-aðild og hlaut hún samþykki 16. júlí 2009.

Istockphoto-670891782-612x612Í þingkosningum vorið 2013 hlutu ESB-ríkisstjórnarflokkarnir hroðalega útreið. Draumur ýmissa um ESB-aðild hvarf ekki og hópur ESB-sinna innan Sjálfstæðisflokksins stofnaði stjórnmálaflokkinn Viðreisn 24. maí 2016.

Í hópi Viðreisnarmanna er Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann skrifar vikulegar greinar í Fréttablaðið og lítur gjarnan aftur fyrir hörmungarsögu ESB-aðildartilraunarinnar og lætur eins og unnt sé að strika yfir þann svarta kafla í sögu íslenskra utanríkismála. Túlkun mín á 111. gr. er meðal þess sem Þorsteinn nefnir í grein sinni í dag (15. október) og segir síðan:

„Fyrirfram er ekki unnt að gefa sér hver afstaða Evrópusambandsins yrði. Ýmsir efast um áhuga þess... það yrði bæði lögfræðilega og pólitískt erfitt fyrir Evrópusambandið að hafna viðræðum um þetta álitaefni.“

Hentistefna þeirra sem sögðu skilið við Sjálfstæðisflokkinn vegna ESB-aðildar er alkunn. Þorsteinn kýs að bregða aðeins ljósi á þann hluta þessarar sögu sem hentar honum. Hann ætti að segja söguna alla og rifja upp heitstrengingar Viðreisnar- og Brusselmanna gegn evru-aðild án ESB-aðildar.