16.5.2021 10:38

Helmingur þjóðarinnar með bóluefni

Rík tilhneiging til hjarðhegðunar hér á landi hefur vissulega auðveldað baráttuna við veiruna.

Rík tilhneiging er hér til þess að gagnrýna alla sem hreyfa öðrum skoðunum en felast í fyrirmælum frá fámennum hópi sérfræðinga í sóttvörnum. Það sem sagt hefur verið hér á síðunni um óþægindi af grímuskyldunni er lagt út á þann veg af ýmsum að höfundurinn sé anarkisti eða hallist jafnvel að einhverju enn verra. Áminningar eru birtar í athugasemdum eins og þessi:

„Út af hverju heldur þú að okkur gengur (svo!) betur en öðrum þjóðum að berjast við covid? það er vegna þess að við förum eftir tilmælum aldrei þessu vant.“

Athugasemdin er vegna þess að endurbirt var á Facebook-síðu minni frétt um að sóttvarnastofnun Bandaríkjanna teldi ástæðulaust að fullbólusettir bæru grímur. Af því tilefni skrifaði ég: „Jæja, það hlýtur að styttast í fall grímunnar hér. Álíka margir bólusettir hér hlutfallslega og í Bandaríkjunum.“ Síðar benti ég á að fimmtudaginn 13. maí hefði bandaríska varnarmálaráðuneytið aflétt grímuskyldu af fullbólusettum starfsmönnum sínum eftir að þeim var skylt að bera grímur í rúmlega eitt ár. Hér hvöttu sóttvarnayfirvöld hins vegar ekki til að grímur yrðu notaðar fyrr en 21. september 2020.

Rík tilhneiging til hjarðhegðunar hér á landi hefur vissulega auðveldað baráttuna við veiruna og haldi einhverjir að ég hafi ekki tekið þátt í þessu átaki samkvæmt opinberum fyrirmælum er það alrangt. Þau takmarka hins vegar ekki skoðana- og málfrelsi eins og ætla má af viðbrögðum margra.

Denmark-health-virus-appÞessi mynd úr Jyllands-Posten minnir á að í Danmörku fá fullbólusettir „kórónupassa“ sem veitir þeim ýmis réttindi. Nú eru raddir um að hálfbólusettir eigi einnig að fá þennan passa.

Þeir sem fylgjast með erlendum fjölmiðlum átta sig fljótt á að víða um lönd eru umræður um opinbera sóttvarnastefnu mun líflegri en hér á landi. Í danska blaðinu Jyllands-Posten má til dæmis í dag (16. maí) lesa grein um að greiða megi fyrir frelsi í Danmörku með því að Danir fái „kórónupassa“ eftir fyrri sprautu af tveimur gegn COVID-19. Fyrir þessu sé stuðningur meðal stjórnmálamanna og sérfræðinga í heilbrigðismálum. Sérfræðingur bendir á að rannsóknir á vegum Pfizer sýni að bólusetning með efni fyrirtækisins veiti 89% vörn meira en 10 dögum eftir fyrri bólusetningu og 95% vörn tveimur vikum eftir þá síðari. Þessi litli munur réttlæti ekki að beðið sé með útgáfu bólusetningarpassa, hann veitir til dæmis aðgang að veitingastöðum og ferðafrelsi. Aðrir telja að með ákvörðun um þetta tækju stjórnmálamenn of mikla áhættu. Danska heilbrigðisráðuneytið segist fylgjast með framvindu mála og niðurstöðum rannsókna, rétturinn til „kórónupassa“ breytist í samræmi við bestu vitneskju.

Hér hafa yfirvöld ekki gefið út passa eins og Danir til fullbólusettra og þau hafa ekki heldur ljáð máls á að réttur þeirra sé almennt annar en óbólusettra. Föstudaginn 14. maí voru 28% hálfbólusettir hér og 22% fullbólusettir, samtals 50% þjóðarinnar og við hlutfallið bætast 2,1% sem hafa fengið COVID. Flestir hafa verið bólusettir með Pfizer um 70.000 manns og hafa því 89% vörn tíu dögum eftir fyrri bólusetningu og 95% tveimur vikum eftir þá síðari.

Hér skal enn áréttuð sú skoðun að vegi sóttvarnayfirvöld að sanngirni og skynsemi með ákvörðunum sínum glata þau trúverðugleika.