11.12.2019 10:53

Helgi Hrafn truflaður á alþingi

Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson hefur farið hamförum gegn þessu máli í ræðum á alþingi. Hann segir um samkomulag ríkis og kirkju frá 1997 „óheiðarlegasti samningur sem ég hef nokkurn tímann vitað af“.

Fulltrúar íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar rituðu 6. september 2019 undir viðbótarsamning um endurskoðun á samkomulagi sínu um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 (kirkjujarðasamkomulagið). Nú er til umræðu á alþingi frumvarp dómsmálaráðherra um framkvæmd þessa viðbótarsamnings en samkvæmt honum skal kirkjan annast launagreiðslur til alls starfsfólks síns frá 1. janúar 2020 í stað þess að biskup Íslands, vígslubiskupar, 138 starfandi prestar og prófastar þjóðkirkjunnar og 18 starfsmenn biskupsstofu þiggi laun úr ríkissjóði. Þarna liggur með öðrum orðum fyrir skuldbinding af ríkisins hálfu um að samkomulagið komi til framkvæmda 1. janúar 2020.

Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson hefur farið hamförum gegn þessu máli í ræðum á alþingi. Hann segir um samkomulag ríkis og kirkju frá 1997 „óheiðarlegasti samningur sem ég hef nokkurn tímann vitað af“.

Helgi Hrafn sagði þetta þriðjudaginn 10. desember undir dagskrárliðnum „fundarstjórn forseta“ og fann Steingrímur J. Sigfússon þingforseti að orðum hans „efnisleg umræða um það á ekki heima undir fundarstjórn forseta,“ sagði Steingrímur J. Þá fann Helgi Hrafn að því að forseti hefði truflað sig í ræðunni! Endurtók hann síðan að þetta „hörmulega samkomulag við ríkiskirkjuna“ væri „óheiðarlegasti samningur sem gerður hefur verið á Íslandi“. Lauk svo máli sínu með því að segja: „Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemd við að vera truflaður svona. Ég ætla að koma aftur í ræðu á eftir.“

834418Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson flytur ræðu á alþingi. (Mynd mbl.is.)

Píratinn Halldóra Mogensen kom flokksbróður sínum til hjálpar með þessum orðum: „... þingmaður Pírata kemur upp og andmælir „actually“ dagskránni, þ.e. máli [kirkjujarðasamkomulaginu] sem verið er að setja á dagskrá, og færir rök fyrir því hvers vegna hann andmælir því að þetta mál sé sett á dagskrá, finnst forseta þörf á að trufla þingmanninn. Þetta gerist svakalega oft. Ég bið hæstv. forseta um að skoða hversu oft hann er raunverulega að trufla þingmenn Pírata í sínum ræðum í þessari pontu. Mér þykir það gerast óþarflega oft miðað við hvernig tekið er á öðrum þingmönnum í þessum þingsal.“

Píratar eru andvígir því að forseti alþingis fari að þingsköpum. Hér var á dögunum lýst hvernig samfylkingarmaðurinn Guðjón S. Brjánsson, fyrsti varaforseti þingsins, missti tökin á stjórn þingfundar þegar flokkssystkini hans misnotuðu dagskrárliðinn „fundarstjórn forseta“.

Píratinn Helgi Hrafn stóð við hótun sína við þingforseta og tók aftur ögrandi til máls undir liðnum fundarstjórn forseta og sagði meðal annars:

„Svo á að afgreiða þetta fyrir áramót, rétt fyrir jól, nota jólin sem enn eina tilfinningakúgunina til að koma hagsmunum þjóðkirkjunnar að umfram hagsmuni annarra trúarsöfnuða í landinu.“

Forseti Steingrímur J. Sigfússon svaraði meðal annars með þessum orðum:

„Það er ævagömul venja hér að láta þingmenn ekki vanvirða dagskrána með þeim hætti að grauta saman umræðum um mál sem þegar eru á dagskrá fundar og taka þau undir öðrum liðum. Forverar mínir hafa hér mann fram af manni haldið mönnum við efnið í þessum efnum. Það þori ég að ábyrgjast með minni þingreynslu. Forseti er ekki að gera neitt annað en það sem fellur undir þá skyldu hans að halda góðri reglu á fundum.“

Þessi áminning forseta alþingis var tímabær. Vonandi tekst honum að fá þá sem sitja með honum í forsætisnefndinni til að virða hana og sýna þann myndugleik á forsetastóli sem dugar til að halda þingmönnum við efnið samkvæmt dagskrá þingsins.