Fundarstjórn þingforseta í molum
Þessi skýring dugar ekki til að eyða grunsemdum um að forsetinn hafi einfaldlega verið sáttur við það sem á borð var borið.
Þingfréttir heyra sögunni til í íslenskum fjölmiðlum. Allir sem áhuga hafa geta fylgst með því sem gerist á alþingi í beinni útsendingu í sjónvarpi. Ljósleiðaratengingar um land allt hafa eytt öllum ójöfnuði í því efni. Virðing alþingis hefur minnkað jafnt og þétt þrátt fyrir að þingsalurinn sé í raun opinn öllum og ekki þurfi að fara á þingpallana eins og áður til að fylgjast með því sem í þinghúsinu gerist. Þá er jafnframt unnt að nálgast allt sem lagt er fram og sagt á þingi á vefsíðu þingsins althingi.is.
Enn er talið til tíðinda að þingnefnd, sérstaklega
stjórnarskrár- og eftirlitsnefnd, kalli einhverja á sinn fund eða taki mál til
athugunar. Vegna þess hve stundum er lotið lágt í því efni líður þó ekki á
löngu þar til afskipti þingnefnda af málum þykja ekki lengur fréttnæm. Þá er
ekki til að auka trú manna á þessu eftirlitshlutverki að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
þingmaður Pírata, skuli stýra stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni. Fyrst
þingmanna er hún talin brotleg við siðareglur þingmanna.
Guðjón S. Brjánsson, fyrsti varaforseti alþingis, ávarpar þingheim af forsetastóli. (Mynd mbl.is.)
Efnisleg umræða um þingmál er takmörkuð í fjölmiðlum. Undanfarið hefur ríkisútvarpið sýnt frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um fjölmiðlamál sérstakan áhuga og hamrað á því að ekki séu allir í þingflokki sjálfstæðismanna sáttir við frumvarpið. Þingflokkurinn hefur þó afgreitt málið frá sér en með fyrirvörum einstakra þingmanna eins og algengt er. Líklegt er að innan allra þingflokka séu skiptar skoðanir um þetta mál og fráleitt að afgreiða það án þess að fjalla sérstaklega um þann miðil, ríkisútvarpið, sem fær langmest fé frá skattgreiðendum, um 5.000 milljónir króna á ári. Sagt er að frumvarpið geri ráð fyrir að hæsta greiðsla skattgreiðenda til einkarekinna miðla verði 50 milljónir króna á ári.
Í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. desember birtist löng frásögn af umræðum á þingi. Má rekja birtinguna til frétta um að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gekk af fundi alþingis mánudaginn 25. nóvember til að mótmæla fundarstjórn Guðjóns S. Brjánssonar (Samfylkingu), fyrsta varaforseta alþingis, sem lét flokkssystkinum sínum eftir að vega að ráðherranum með ásökunum um lögbrot til ganga erinda Samherja með skorti á fjárveitingum til innlendra rannsóknaraðila. Þetta gerðu þingmennirnir undir dagskrárliðnum „fundarstjórn forseta“. Forseti maldaði í móinn en stýrði ekki fundinum. Guðjón S. Brjánsson afsakaði dugleysi sitt með því að ekki hefði verið vegið að æru Bjarna heldur störfum hans sem fjármálaráðherra. Þessi skýring dugar ekki til að eyða grunsemdum um að forsetinn hafi einfaldlega verið sáttur við það sem á borð var borið. Alþingi setti niður þennan dag vegna þess hve illa forseti þingsins hélt á stjórn mála. Hann sýndi hvorki óhlutdrægni né myndugleika.
Hitt er síðan grátbroslegt að lesa hve Helga Vala Helgadóttir (Samfylkingu) var hneyksluð á að fjármálaráðherra gekk af fundi til að taka ekki þátt í þessari niðurlægingu alþingis. Helga Vala jók ekki virðinguna fyrir alþingi með því að laumast af hátíðarfundinum á Þingvöllum 18. júlí 2018 til þess eins að móðga forseta danska þingsins sem var sérstakur gestur alþingis vegna fullveldishátíðarinnar. Það var með öllu tilefnislaus útganga.