Heimsstríðið hófst í Póllandi
Þess er minnst í dag, 1. september 2019, að 80 ár eru liðin frá upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar.
Í dag er þess minnst í Póllandi og víðar að 80 ár eru liðin frá því að her Hitlers og þýskra nazista gerði sprengjuárásir á pólska bæinn Wielun sem þá var skammt austan þýsku landamæranna. Um 1200 manns féllu í árásunum, fyrstu fórnarlömb síðari heimsstyrjaldarinnar. Pólverjar urðu verst allra þjóða úti í styrjöldinni þegar litið er á mannfall sem hlutfall íbúafjölda. Þá var skipulega unnið að því að eyðileggja borgi og bæi landsins.
Á þýska þinginu vex stuðningur við að reisa í Berlín minnismerki um hörmungar Pólverja vegna grimmdar nazista. Wolfgang Schäuble þingforseti styrður framtakið og telja margir að það verði til að í það verði ráðist.
Eftir að stríðinu lauk árið 1945 liðu áratugir án þess að tekið yrði upp stjórnmálasamband milli Póllands og Vestur-Þýskalands. Ísinn í samskiptum ríkjanna var brotinn þegar Willy Brandt kanslari heimsótti Pólland árið 1970 og kraup í virðingarskyni við minnismerki um fórnarlömb styrjaldarinnar í Varsjá. Það var ekki fyrr en árið 1990 sem þýska ríkisstjórnin viðurkenndi Oder-Neisse-línuna sem austur landamæri Þýskalands gagnvart Póllandi.
Wroclaw, áður Breslau, varð hluti af Póllandi eftir síðari heimsstyrjöldina. Þaðan eru aðeins 125 austur að Wielun og Breslau var mikilvæg miðstöð nazista fyrir og við upphaf styrjaldarinnar. Í september 1944 gaf Hitler fyrirmæli um að Breslau skyldi varin þar til yfirlyki. Greip herstjórinn þar meðal annars til þess ráðs á rífa hús og ryðja fyrir flugvelli í hjarta borgarinnar í því skyni að styrkja varnir hennar. Sjást merki um völlinn enn.
Eftir stríðið og stækkun Póllands í vestur voru Þjóðverjar reknir frá Breslau og öðrum stöðum í Slesíu og þangað komu Pólverjar sem voru hraktir frá Úkraínu. Í vikunni var ég með skólafélögum í MR árgangi 1964 í Wroclaw. Borgin er falleg og íbúarnir vingjarnlegir. Myndin sem við fengum af Póllandi var góð og vingjarnleg. Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni auk myndar frá stríðslokum.
Svona leit ráðhúsið í Wroclaw (Breslau) út í lok stríðsins 1945 milli 70 og 80% bygginga í borginni voru rústir einar.
Frá ráðhústorginu í Wroclaw 29. ágúst 2019.
Þarna er nú héraðsstjórn í Slesíu en nazistar reistu þessa byggingu við ána Oder.
Listaverkið kallast Przejscie (Passage á ensku) og er minnisvarði um fólk sem hvarf í ofsóknum kommúnistastjórnarinnar á árunum 1981-1983. Verkið er beggja vegna götu, fólkið hverfur undir götuna handan hennar en kemur upp þar sem ég stóð við töku myndarinnar. Björn Freyr Björnsson benti mér á tilefni verksins með athugasemd á Facebook. Sjá einnig þessa lýsingu á verkinu.
Móðir sýnir börnum minnismerki um fjöldamorð Sovétmanna á Pólverjum í Katyn-skógi.
Hæsta bygging Póllands, 212 m há, rýfur borgarmyndina í Wroclaw.
Víða má sjá dverga við byggingar í Wroclaw, Þessi stendur við aðalinngang gömlu háskólabyggingarinnar.
Siglt eftir Oder sem norðar og vestar sameinast Neisse og myndar 187 km löng landamæri með Þýskalandi.