26.7.2021 11:45

Heimsminjaskráning Þingvalla

Það yrðu mikil vonbrigði ef ekki tækist betur til en heimsminjanefndin máði Þingvelli af heimsminjaskránni.

Í grein í Morgunblaðinu laugardaginn 24. júlí minnti Jónas Haraldsson lögfræðingur á að 4. ágúst 2019 sendi hann kvörtun til heimsminjaskrár UNESCO um „að ástæða væri til að taka hinn friðlýsta þjóðgarð á Þingvöllum af heimsminjaskránni vegna froskköfunarstarfseminnar sem þar [hefði] verið rekin í mörg ár í gjánni Silfru í hjarta þjóðgarðsins“. Telur Jónas þessa starfsemi á engan hátt falla „að náttúruverndarsjónarmiðum heimsminjaskrárinnar eða friðhelgi Þingvalla, þessum helgasta stað okkar Íslendinga“.

Undir það skal tekið með Jónasi að „hrikaleg sjónmengun“ er „af froskköfurunum við og í Silfru og öllu því sem þeim tilheyrir á athafnasvæði þeirra við Silfru“. Á sínum tíma lét þáverandi Þingvallanefnd fjarlægja frá þessum stað hús á vegum þjóðgarðsins sem hún taldi valda sjónmengun þarna og var húsið þó smásmíði miðað við þau ósköp sem blasa nú við augum gesta.

Grein sína birtir Jónas í sömu viku og heimsminjanefnd UNESCO ákvað á 44. fundi sínum sem haldinn er í Fuzhou í Kína að má af skránni þann hluta hafnarinnar í Liverpool sem samþykktur var á skrána í júlí 2004. Var þetta í þriðja sinn sem staður er máður af listanum. Vistkerfi í Óman var afmáð árið 2007 og Elbudalurinn við Dresden árið 2009 eftir að fjögurra akreina brú var lögð þar yfir ána Elbu.

Jónas spáir því að á næsta fundi sínum, árið 2022, taki heimsminjanefndin afstöðu til kvörtunar hans og mótraka Þingvallanefndar.


58094477_30358606792_303Efri myndin var birt í júlí 2004 þegar hafnarsvæðið í Liverpool var skráð á heimsminjasrká UNESCO. Neðri myndin er birt í júlí 2021 þegar svæðið er máð af heimsminjaskránni.

Þegar rætt er um dapurleg örlög hafnarinnar í Liverpool má minnast þess að skráning hennar á heimsminjaskrána var einmitt samþykkt í Suzhou í júlí 2004 á sama fundi og skráning Þingvalla var samþykkt, okkur öllum til mikillar ánægju sem vorum þar stolt fyrir Íslands hönd.

Tæplega 900 staðir eru á heimsminjaskránni og fordæmi um að ekki sé brugðist við kvörtunum um undanbrögð á rökstuddan hátt eru eitur í beinum þeirra sem vilja veg skráningarinnar sem mestan.

Heimsminjaskráningin hefur einnig pólitíska hlið sem ekki ber að vanmeta. Sérfræðingur segir til dæmis við þýsku fréttastofuna DW að breska ríkisstjórnin hafi ekki lagt sig nógu mikið fram til varnar Liverpool. Einmana óformlega klæddur fulltrúi breska menningarmálaráðuneytisins hafi tekið þátt í ráðstefnunni en enginn frá utanríkisráðuneytinu. Kínverji skipi formannssætið í heimsminjanefndinni og hafi formanninum örugglega ekki mislíkað að gera á hlut Breta vegna deilna um Hong Kong og örlög Úígúra. Með 13 atkvæðum gegn fimm var ákveðið að skrá Liverpool af heimsminjaskránni.

Það yrðu mikil vonbrigði ef ekki tækist betur til en heimsminjanefndin máði Þingvelli af heimsminjaskránni vegna þess að Þingvallanefnd virti ekki eða færi á svig við þá skilmála sem samþykktir voru árið 2004 eftir marga og stranga fundi og fræðilegan og annars konar undirbúning á þeim tíma.

Varðstaða um heimsminjaskráningu Þingvalla er ekki aðeins á hendi Þingvallanefndar heldur einnig þeirra sem sinna heimsminjamálum á vegum íslenskra stjórnvalda. Þeir verða að leggja mat á stöðuna og tryggja stuðning við góðan málstað í þágu Þingvalla í heimsminjanefndinni.