2.1.2021 10:11

Heilsuhvatning forseta

Undir þessi orð forseta Íslands skal tekið. Það er með ólíkindum hve lítilli athygli er beint að forvörnum og forvirkum aðgerðum á sviði heilbirgðismála.

Fyrir forsetakosningar í lok júní 2020 sat herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fyrir svörum í sjónvarpi. Minnt var á að frú Vigdís Finnbogadóttir hefði lagt áherslu á ræktun landsins sem forseti og herra Ólafur Ragnar Grímsson beint athygli að þróun mála á norðurslóðum. Hvort núverandi forseti ætti ekkert baráttumál, lýsti hann vilja til að efla heilsurækt og lýðheilsu. Í nýársávarpi 1. janúar 2021 sagði forseti Íslands:

„Og loks fær farsóttin okkur kannski til að skilja enn betur þau sannindi að góð heilsa er gulli betri. Við vildum og viljum kosta miklu til að hefta útbreiðslu geigvænlegs smitsjúkdóms. Það er að sjálfsögðu lofsvert en um leið ættum við að huga enn betur en áður að heilbrigði og heilsufari í víðum skilningi. Við ættum að huga að forvirkum aðgerðum sem stuðla að betri lýðheilsu og geðheilsu. Þannig bætum við ekki aðeins líðan okkar heldur minnkum til muna kostnað í opinberum rekstri. Bent hefur verið á að hér á Íslandi eins og annars staðar á Vesturlöndum rennur drjúgur meirihluti útgjalda heilbrigðiskerfisins til meðferðar við langvinnum lífsstílstengdum sjúkdómum. Einungis broti af þeirri upphæð hefur verið veitt til forvarna. Beinn og óbeinn ágóði af átaki á þeim vettvangi yrði hins vegar ótvíræður.“

Undir þessi orð forseta Íslands skal tekið. Það er með ólíkindum hve lítilli athygli er beint að forvörnum og forvirkum aðgerðum á sviði heilbirgðismála.

Hér á þessari síðu hefur í áranna rás verið vakin athygli á gildi kínversku lífsorkuæfinganna qi gong sem hafa verið stundaðar í mörg árþúsund í þágu heilbrigðis og langlífis. Rannsóknir á heilsufarslegum ábata æfinganna eru svo viðamiklar að fátt jafnast á við þær og margar heimskunnar heilsufarsstofnanir mæla með þeim.

IMG_1821Á Klambratúni 23. júlí 2020 - á annað hundrað manns æfa qi gong á vegum Aflsins og Tveggja heima.

Um árabil hefur félagið Aflinn boðið til qi gong æfinga utan dyra á sumrin. Nú undanfarin sumur á Klambratúni í samvinnu við Tvo heima – miðstöð hugar og heilsu. Á annað hundrað manns hafa sótt þessar æfingar, 45 mínútur í senn, tvisvar í viku. Betra æfingakerfi fyrir eldri borgara, og alla aldurshópa, verður tæplega fundið. Vonandi víkur veiran svo að Aflinn geti á nýbyrjuðu ári boðið qi gong að nýju en skipulögð ástundun æfinganna innan dyra lagðist af í febrúar 2020.

Sundferðir urðu stopulli á árinu 2020 en áður vegna veirunnar. Frá því að þær voru stöðvaðar í október hef ég látið hjá líða að fara í sund vegna ótta við smit en nú fer að rofa til að nýju.

Gönguferðir hafa ekki verið bannaðar enda forðist menn hópmyndun. Síminn minn sýnir að á árinu 2020 hafi ég að meðaltali gengið 3,7 km á dag eða 1350,5 km allt árið, 112 km á mánuði sem jafngildir vegalengdinni úr Reykjavík í Reykholt í Borgarfirði.

Tölurnar sýna að safnast þegar saman kemur. Minnt skal á að unnt er að kaupa alls kyns mannbrodda til að minnka líkur á falli í hálku – auk þess sem léttar qi gong æfingar draga mjög úr fallhættu eldri borgara!

Samhliða líkamlegum æfingum má ekki gleyma huganum – með qi gong er auðvelt að sameina líkama og sál, stunda hugleiðslu í hreyfingu.