Heilladrjúg samvinna stjórnmálaafla
Fortíðarþráin getur blásið mönnum kapp í kinn en hún breytir ekki þörfinni fyrir að taka mið af kennileitum samtímans og láta þau leiða sig áfram.
Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, var í hópi fjögurra fræðimanna sem fluttu fyrirlestur hjá okkur að Kvoslæk í Fljótshlíð undir merkjum fullveldisafmælisins sumarið 2018. Hann ræddi um um vinagleði: félagslega þýðingu bókmennta í þjóðernislegu samhengi. Undir lok árs 2019 gaf Hið íslenska bókmenntafélag út bók hans Ísland í Eyjahafinu sem fjallar um sama efni.
Heiti bókarinnar vekur strax spurningar en Sveinn Yngvi segir í formála að hann fjalli um þætti úr sögu þjóðlegrar menningarsköpunar sem reist sé á alþjóðlegum viðmiðum og bætir við:
„Í titli bókarinnar er brugðið á leik með þá hugsun og Ísland sett niður einhvers staðar í Eyjahafinu. Höfundar og listamenn eins og Benedikt Gröndal og Sigurður [Guðmundsson] málari voru iðulega með hugann við Grikkland hið forna og það var útbreidd skoðun á 19. öld að Ísland væri einskonar Hellas Norðursins.“
Fortíðarþráin getur blásið mönnum kapp í kinn en hún breytir ekki þörfinni fyrir að taka mið af kennileitum samtímans og láta þau leiða sig áfram. Hvers vegna skyldu menn til dæmis vilja hverfa aftur til harkalegra kjaradeilna? Það er þó krafa þeirra sem berjast undir merkjum endurreists sósíalistaflokks.
Í Bakþönkum Fréttablaðsins í dag (11. janúar) nefnir Pétur Blöndal stjórnmálabaráttu fimmta og sjötta áratuganna til sögunnar þegar Ólafur Thors leiddi Sjálfstæðisflokkinn og segir síðan um samtímann:
„Öll höfum við hag af lágri verðbólgu og vöxtum, litlu atvinnuleysi og örvun verðmætasköpunar til að standa undir velferðinni. Eins er sameiginlegt verkefni að tryggja hag hinna lakar settu. Það var þangað sem Ólafur [Thors] sótti köllun sína í stjórnmálum. Það hefði gefið honum tilefni til bjartsýni, að kaupmáttur hefur aukist um 55% síðustu tvo áratugi, þar af kaupmáttur lágmarkslauna um 85%.“
Fortíðin verður kveikja að háleitum markmiðum en menn verða að nýta tæki samtímans til að móta framtíðina. Aðferðum Sigurðar málara er ekki beitt nú á tímum til að kveikja ættjarðarást Íslendinga. Stjórnmálabarátta fimmta og sjötta áratugarins var barn síns tíma þótt markmiðin hafi ekki breyst. Síðan hefur til dæmis orðið bylting í fjölmiðlun. Flokksblöðin eru úr sögunni og beita verður allt öðrum aðferðum til að afla sér stuðnings en áður.
Samtíma-stjórnmálamönnum hefur almennt tekist vel að halda þjóðarskútunni á réttri braut. Fullyrðingar um annað styðjast við annað en almenna mælikvarða við mat á árangri stjórnmálamanna. Einmitt þess vegna er reynt að ýta meginmálefnum til hliðar og stofnað og leitast við að sverta einstaklinga og flokka.
Það er rétt sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir í Morgunblaðinu (sunnudagsblaði 12. jan.):
„Samvinna íhaldssamra og frjálslyndra afla um framgang borgaralegra gilda hefur skipt sköpum fyrir samfélagsþróunina á Íslandi. Mikilvægt er að hún haldi áfram og verði áfram traust, þó að vitaskuld verði alltaf tekist á um gildi stöðugleikans annars vegar og breytinga hins vegar.“