16.11.2022 9:15

Hátíðisdagur tungunnar

Dagurinn er alls ekki síðasta vígi dauðvona þjóðtungu, heldur merki um hina staðfestu vissu Íslendinga, að þeir eiga sér eigin sögu og menningararfleifð.

Á fyrsta degi íslenskrar tungu 16. nóvember 1996 flutti ég sem menntamálaráðherra ávarp í Listasafni Íslands og sagði meðal annars:

„Dagur íslenskrar tungu er hátíðisdagur móðurmálsins. Hann er dagur, sem Íslendingar nota til að íhuga sérstöðuna, sem endurspeglast í tungunni. Dagurinn er alls ekki síðasta vígi dauðvona þjóðtungu, heldur merki um hina staðfestu vissu Íslendinga, að þeir eiga sér eigin sögu og menningararfleifð.

Áhugi á því að leggja rækt við tunguna er mjög mikill. Sjást þess víða merki. Eru margir, sem vilja láta að sér kveða í því skyni. Með því að efna til dags íslenskrar tungu ætti að vera unnt að tryggja sameiginlegt átak. Við vitum öll, að margar hendur vinna létt verk.

Áreitið á tunguna er meira en nokkru sinni fyrr. Upplýsingar streyma að okkur eftir nýjum leiðum og engum dettur í hug að stífla þær. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að minna á þá staðreynd, að tungumálið er tækið, sem við nýtum til að miðla þekkingu og afla hennar. Hún er öflugasta, þjóðlega verkfæri okkar. Íslenskan mótar handbragð okkar Íslendinga í þekkingarsamfélaginu og hún gefur framlagi okkar til þess sérstakt gildi. Með því að leggja rækt við sérkenni tungunnar styrkjum við hlut okkar í hinu alþjóðlega samfélagi.“

Viðburðir í anda dagsins hafa þróast á undanförnum 26 árum. Í kynningarblaði sem fylgir Fréttablaðinu nú 16. nóvember segir Guðrún Nordal, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: „Við komum að því að skipuleggja daginn með ráðuneytinu og það er alltaf eftirvænting í kringum hann. Í þetta skipti er eiginlega öll vikan lögð undir og hófst með málþingi forsætisráðherra um íslenska tungu á mánudaginn [14. nóv.].“

IMG_6117_1668589896319Myndin var tekin 10. nóvember 2022 og sýnir vegg hússins sem framvegis hýsir handritin og helstu stofnanir íslenskunnar. Eins og sjá má mótar fyrir orðum í koparnumm

Á málþinginu skýrði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra frá því að sett hefði verið á laggirnar ráðherranefnd til að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Þá mundi ráðherranefndin vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins.

Forsætisráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eiga fast sæti í ráðherranefndinni. Munu ráðuneyti þeirra hafa umsjón með skilgreindum áherslum sem verða útfærð í aðgerðaáætlun um íslenska tungu.

Verður spennandi að sjá hverju þetta samhæfða átak skilar. Þegar menntamálaráðuneytið beitti sér í upphafi fyrir degi íslenskrar tungu hafði það á hendi verkefni sem nú hefur verið deilt á milli margra ráðuneyta. Slagkraftur menningarmálaráðuneytisins er greinilega ekki lengur talinn duga.

Strax var skipulagt samstarf með aðilum utan ráðuneytisins og má sjá merki um það í auglýsingum og frumkvæði fyrirtækja sem birtast í dag. Þá skrifar Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hvatningargrein í tilefni dagsins í Morgunblaðið.