3.8.2024 11:18

Hátíðartengsl til vesturs

Íslendingadagurinn er haldinn hátíðlegur í Gimli, í Manitoba-fylki í Kanada, nú um helgina. 

Íslendingadagurinn er haldinn hátíðlegur í Gimli, í Manitoba-fylki í Kanada, nú um helgina. Íslendingum var úthlutað stóru landsvæði við Manitobavatn árið 1875. Þar hafa þeir verið síðan og stofnuðu til þeirrar hátíðar sem þar er haldin árlega árið 1890. Hátíðin er nú haldin í 135. skipti.

Ég sótti þessa hátíð fyrir 60 árum, 1964, í opinberri ferð foreldra minna. Eftir dvöl í Winnipeg og nágrenni lá leið okkar, fljúgandi og akandi, að Kyrrahafsströnd Kanada. Þaðan suður til Bandaríkjanna, alla leið til Los Angeles og loks til Washington DC í heimsókn til Lyndons B. Johnsons Bandaríkjaforseta. Þetta var tæpu ári eftir að John F. Kennedy var myrtur og fórum við að gröf hans í Arlington-kirkjugarði.

Margs er að minnast úr þessari ferð og fréttir af Íslendingadeginum segja mér að allt sé þar í föstum skorðum og með svipuðu yfirbragði og fyrir 50 árum og glæsileikinn í skrúðgöngunni sá sami.

Screenshot-2024-08-03-at-11.17.02Þessi stytta af Jóni Sigurðssyni stendur í þinghúsgarði Manitoba-fylkis í Winnipeg.

Kanadastjórn mótaði nýlega og kynnti norðurslóðastefnu þar sem fram kemur að herafla Kanada sé ætlað sérstakt hlutverk til að verja norðvesturvæng NATO. Hve langt í austur þetta verkefni nær kemur ekki fram í skýrslunni en af frásögn af málþingi um öryggissamstarf Íslands og Kanada sem haldið var fyrir embættismenn, herforingja og fræðimenn í Ottawa í lok maí 2024 má ráða að lögð sé rík áhersla á snurðulaust samstarf íslenskra og kanadískra yfirvalda á þessu sviði. 

Kanadísk og íslensk stjórnvöld eiga fulltrúa í sameiginlegri herstjórn NATO í Norfolk í Bandaríkjunum. Skil verða hins vegar á milli landanna þegar litið er til herstjórnarkerfis Bandaríkjanna og ábyrgðarskiptingu innan þess. Í tvíhliða samstarfi sínu við Bandaríkin fellur Kanada undir ábyrgðarsvæði (AOR) USNORTHCOM en Ísland er á ábyrgðarsvæði (AOR) EUCOM. Á málþinginu var lögð áhersla á að þessi skil mættu ekki verða til að veikja öryggissamstarf ríkjanna.

Þess verður minnst á næsta ári að 150 ár verða liðin frá því að Íslendingar fengu forræði lands við Manitobavatn. Er ekki að efa að upprifjun á þeirri sögu allri verði enn til þess að minna okkur hér á landi á hve tengslin vestur um haf eru sterkur þáttur í landnáms- og þjóðarsögu okkar.

Þegar við minntumst 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar fyrir 150 árum var Bandaríkjamaðurinn Cyrus W. Field (1819-1892) í forystu fimm manna nefndar sem kom með 250 tonna gufuskipi, Albion. Var Field sagður sendimaður viðskiptaráðs New York, hins mikla verslunarstaðar. Field hafði frumkvæði að lagningu símastrengs á botni Atlantshafs og er hans minnst í sögu fjarskipta fyrir brautryðjendastarf sem gjörbylti öllum hugmyndum um fjarskipti.

Meðal gesta Fields var læknirinn og norðurskautsfarinn Isaac Israel Hayes (1832-1881) sem skrifaði greinar fyrir The New York Tribune um ferðir sínar og vísindaleg málefni. Eiríkur Magnússon (1833-1913), bókavörður í Cambridge, var einnig í hópi Fields og hafði orð fyrir honum þegar hátíðarræður voru fluttar. Var þess sérstaklega getið að Eiríkur hefði tekið að sér að vera „fréttaritari veraldarblaðsins The Times við þjóðhátíðina“.