19.7.2018 10:58

Hátíðarstund á Þingvöllum – píratar allra flokka bregðast ekki

Við sem vorum á Þingvöllum í gær fengum að skoða nýbyggingar við gestastofuna á Hakinu. Þær eru um 1200 fermetrar og hýsa meðal annars glæsilega sýningu um Þingvelli.

Einkennilegasta athugasemdin vegna þingfundarins á Þingvöllum í gær (18. júlí) er að hann hafi verið haldinn þann dag til að draga úr þátttöku almennings. Menn hafi almennt verið við vinnu kl. 14.00 á miðvikudegi. Dagsetningin var einfaldlega valin vegna þess að þennan dag fyrir 100 árum rituðu þingmenn Íslendinga og Dana undir sambandslagasamninginn.

Öllum ætti að vera ljóst að tilefnið nú er annað en 1930, 1944, 1974, 1994 eða 2000 þegar þing hefur komið saman á Þingvöllum á undanförnum áratugum.  Markmiðið var ekki eins og áður að stefna þúsundum manna á Þingvöll. Athöfnin í gær er í anda þeirrar hugmyndar sem Steingrímur J. Sigfússon, forseti alþingis, orðaði á þennan hátt í ávarpi á fundinum:

„Alþingi er bundið Þingvöllum órjúfanlegum böndum og Þingvellir Alþingi. Fram hafa komið hugmyndir um á umliðnum árum að hlúa betur að þeirri arfleifð sem tengir Alþingi í dag við hið forna Alþingi á Þingvöllum. Í þeim efnum hefur helst verið horft til þess að setning Alþingis gæti farið fram á Þingvöllum. Það sjónarmið styð ég heils hugar. Hér á Þingvöllum mætti hafa þingsetningarathöfn að vori að loknum reglulegum þingkosningum hverju sinni og skapa því viðeigandi umgjörð í sátt við náttúruna og helgi staðarins.“

Steingrímur J. er ekki fyrsti þingforsetinn sem reifar þessa hugmynd og lýsir stuðningi við hana. Um tíma var meira að segja rætt um að reisa sérhannaða byggingu á Þingvöllum til að framkvæmd hennar yrði líklegri. Ólíklegt er að til þess komi enda eru mannvirki, önnur en Þingvallabærinn, að hverfa af sléttunni milli Hrafnagjár og Almannagjár.

Img_6442Hlaðið við nýja og stærri gestastofu á Hakinu.

Við sem vorum á Þingvöllum í gær fengum að skoða nýbyggingar við gestastofuna á Hakinu. Þær eru um 1200 fermetrar og hýsa meðal annars glæsilega sýningu um Þingvelli þar sem Gagarín kemur við sögu með háþróuðum miðlunarbúnaði sínum. Við Guðni Ágústsson og Össur Skarphéðinsson, félagar í Þingvallanefnd, ákváðum á sínum tíma um að reisa slíka stofu á þessum stað – með stórauknum straumi ferðamanna var nauðsynlegt að stækka byggingarnar.

Farsæl ákvörðun var tekin um gjaldheimtu á bílastæðum við Hakið og skilar hún ár hvert hundruðum milljóna í tekjur sem renna til framkvæmda í þjóðgarðinum auk þess sem svigrúm til kaupa á sumarbústöðum innan hans hefur aukist. Þingvallanefnd, skipuð sjö alþingismönnum, hlýtur að standa gegn því að Þingvellir falli undir þjóðgarðastofnun sem er á döfinni hjá umhverfisráðuneytinu.

*

Undarlegt er að fylgjast með því hvernig vinstrisinnar á Íslandi láta tilfinningarnar stjórna sér þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, á í hlut. Þeir sem ráðast á hana telja sig standa betur að vígi siðferðilega og hafa efni á að fordæma hana vegna skoðana hennar. Þeir vilja svipta hana málfrelsi. Danski þingforsetinn varpaði engum skugga á þingfundinn í gær og ef til vill var bjartara yfir fundinum en ella vegna þess að píratar ákváðu að verða sér til skammar með því að sækja ekki fundinn.

Img_6441Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, flytur alþingi og íslensku þjóðinni kveðju.

Fundurinn sannaði að Samfylkingin telur sér nú helst til framdráttar að biðla til þeirra sem kjósa pírata. Logi Einarsson flokksformaður sagði nokkur orð á dönsku sem áttu líklega að ögra Piu. Helga Vala Helgadóttir laumaði sér út af þingpallinum sem átti líklega einnig að ögra Piu – enginn veitti þessu brotthlaupi eftirtekt nema sessunautar Helgu Völu á pallinum og fjölmiðlamenn.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður pírata, gekk í þingflokk jafnaðarmanna á þingi Evrópuráðsins gegn því skilyrði að þingflokkurinn tilnefndi hana sem formann laga- og mannréttindanefndar þingsins. Hvernig ætlar hún að framfylgja fráveru-stefnu pírata á þingi Evrópuráðsins? Að þingmaður pírata sem hagar sér á þann veg sem Þórhildur Sunna gerði gagnvart forseta danska þingsins skuli vera formaður mannréttindanefndar þings Evrópuráðsins og það sem jafnaðamaður er jafnmikið hneyksli og að Helga Vala Helgadóttir skuli vera formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis.