7.5.2018 10:43

Hátíðarræður og fréttamenn

Að grafa undan gildi hátíðarræða er gjarnan aðdragandi þess að fréttamenn spyrja viðmælanda sinn hvort ekki skorti opinbert fé.

Þegar fréttamenn eða aðrir nefna hátíðarræður stjórnmálamanna og annarra til sögunnar má skilja að þær séu þess eðlis að lítið eða jafnvel ekkert sé að marka það sem sagt er.

Að grafa undan gildi hátíðarræða er gjarnan aðdragandi þess að fréttamenn spyrja viðmælanda sinn hvort ekki skorti opinbert fé til þessa eða hins verkefnisins. Með öðrum orðum að ekkert sé að marka ræðuna.

Vilji lesendur kynna sér nýlegt dæmi um réttmæti þessarar fullyrðingar má vísa til lokaorða í samtali Óðins Jónssonar fréttamanns á Morgunvakt rásar 1 í morgun (7. maí) þar sem hann ræddi við viðmælanda sinn um styrki til þýðinga.

Óðinn nefndi hátíðarræður til sögunnar og spurði síðan, hvort viðmælandinn teldi nægilegt fé renna til málaflokksins. Svör hagsmunaaðila við spurningum af þessu tagi liggja auðvitað í augum uppi. Þær eru þó dæmigerðar fyrir fréttamenn ríkisútvarpsins, raunar eitt af einkennum fréttastofunnar. Það hefði í raun verið stílbrot hjá Óðni hefði hann ekki lokið samtalinu á þessum nótum.

Í fréttum eftir að þættinum lauk var sagt frá ágreiningi innan íslenska safnaðarins í Noregi og sagt að um tillögu yrði „kosið“. Það færist mjög í vöxt að frétta- og blaðamenn nota sögnina „að kjósa“ þar sem rétt er að tala um að greiða atkvæði. Það eru greidd atkvæði um tillögur en kosið um menn.

Málfátæktin í þessum stutta fréttatíma var ekki bundin við þetta. Sagt var frá vandræðum við stjórnarmyndun á Ítalíu og að

Matteo Salvini, helsti talsmaður hægri flokkanna, væri andvígur hugmyndum um myndun starfsstjórnar á Ítalíu. Á Ítalíu situr nú starfsstjórn, það er ríkisstjórnin baðst lausnar eftir kosningar og hefur ekki umboð meirihluta ítalska þingsins. Forseti Ítalíu reynir að fá leiðtoga stjórnmálaflokkanna til að mynda stjórn sem nýtur stuðnings meirihluta þingmanna. Takist það ekki hefur hann þann kost að skipa utanþingsstjórn það er stjórn „teknókrata“ eins og það er kallað á erlendum málum og er það alls ekki sama og starfsstjórn.

Í hátíðarræðum leggja talsmenn ríkisútvarpsins jafnan áherslu á gildi útvarpsins fyrir íslenska menningu og þá ekki síst tunguna. Þetta heyrist ekki síst þegar reynt er að seilast dýpra í vasa skattgreiðenda. Líklega telur fréttstofan sig ekki þurfa að taka neitt mark á þessum hátíðarræðum.