Hátíðarfundur um NATO
„Þetta þýðir vitaskuld að það er algjör fjarstæða sem stundum heyrist, að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu geri okkur að líklegra hugsanlegu skotmarki en ella.“
Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytið efndu til fundar í hátíðarsal Háskóla Íslands mánudaginn 13. maí til að minnast 75 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins (NATO).
Þar flutti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra kröftuga ræðu um gildi aðildar Íslands að bandalaginu fyrr og síðar. Hún vék að stríði Rússa í Úkraínu og sagði meðal annars:
„Við Íslendingar erum ekki bara áhorfendur að tilraunum Rússa til að valda tjóni. Margvísleg ógn getur steðjað að okkar samfélagi; bæði beint og óbeint. Við vitum til að mynda að Rússar hafa kortlagt sæstrengi og aðra mikilvæga innviði.
Þá er hin hernaðarlega mikilvæga staðsetning Íslands, sem gerði Ísland að hugsanlegu takmarki fyrir Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni, jafnvel enn mikilvægari nú ef til alvarlegri togstreitu eða átaka kemur milli Vesturlanda og Rússlands.
Þetta þýðir vitaskuld að það er algjör fjarstæða sem stundum heyrist, að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu geri okkur að líklegra hugsanlegu skotmarki en ella. Ég reyni almennt að spara stóru orðin; en þessi staðhæfing er að mínu mati hreinræktuð della - Ísland án fælingarmáttar aðildar að Atlantshafsbandalaginu, með sama landfræðilega mikilvægi - væri augljóslega gríðarlega verðmætt herfang fyrir Rússa ef til raunverulegra átaka kæmi.
Allt þetta undirstrikar mikilvægi Atlantshafsbandalagsins á óvissum tímum.“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flytur ræðu á hátíðarfundi vegna 75 ára afmælis NATO.
Í framhaldi af þessu benti ráðherrann réttilega
á hve fráleitt væri að setja hugmyndina um frið upp sem andstæðu við varnir.
Það væru bæði sögulegar og aðrar ástæður
fyrir því að við værum eitt fárra þjóðríkja án hers en það væri ekki af því að
við séum meira friðelskandi en aðrir. Þórdís Kolbrún sagði:
„Munurinn á okkur Íslendingum og því fólki sem hefur þurft að verjast innrásum annarra eða verið þvingað til að taka þátt í innrásum í önnur lönd er einfaldur. Við erum heppin.
Og maður getur sannarlega verið þakklátur fyrir heppni, en maður getur ekki leyft sér að gorta sig af henni.“
Þetta eru orð í tíma töluð nú á lokavikum baráttunnar um Bessastaði þar sem tólf frambjóðendur keppa og einn, Ástþór Magnússon, telur sig friðsamari en alla aðra. Hann vill ekki að Íslendingar leggi neitt til hervarna Úkraínu, segir að slíkt framlag kalli yfir þjóðina rússneska kjarnorkuárás sem hann sé maður til að afstýra í samtali við stríðsmanninn Vladimir Pútin, fái hann til þess stuðning í forsetakosningunum.
Hvarvetna þar sem ríkir málfrelsi og skoðanafrelsi er lögð sífellt ríkari áhersla á að efla viðnámsþrótt þjóða gegn fjölþátta hernaði sem meðal annars felst í delluboðskap eins og Ástþór flytur og kennir við frið.
Í umræðum um Eurovision í ríkisútvarpinu að morgni mánudagsins 13. maí lagði Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði og fastur álitsgjafi fréttamanna, að jöfnu innrás Rússa í Úkraínu og hernaðarlegt svar Ísraela við innrás Hamas í land sitt. Þetta er ekki síður blekking en boðskapur Ástþórs.