1.12.2020 10:15

Háskólinn og fullveldi

Fullveldið er sameign allrar þjóðarinnar, án þess dafnar hún ekki. Hvernig hún kýs að nota það í samskiptum sínum við aðrar þjóðir er álitamál á líðandi stundu.

Þess er minnst í ár að 100 ár eru liðin frá því að Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) var stofnað. Af því tilefni vinnur ráðið meðal annars að gerð heimildarmyndar um sögu þess. Í gær 30. október fór ég á mannautt Háskólatorgið þar sem tekið var upp viðtal við mig um setu mína og formennsku í ráðinu á sjöunda áratugnum.

Merkasta skrefið sem við náðum að stíga þá var að koma Félagsstofnun stúdenta (FS) á fót en fyrir tveimur árum var 50 ára afmælis hennar minnst. Stúdentaráð og FS hafa sameiginlega verið bakhjarlar hagsmunagæslu stúdenta við Háskóla Íslands og náð frábærum árangri eins og við blasir í Vatnsmýrinni þegar litið er til stúdentagarðanna sem þar hafa risið. Við Gamla garð rís nú stór viðbygging sem lögðu var að útliti háskólahverfisins á þessum stað eftir töluverðar umræður.

Fyrsta bygging FS var Stúdentaheimilið milli Gamla garð og Þjóðminjasafnsins. Þar voru skrifstofur FS til húsa og Bóksala stúdenta auk aðstöðu fyrir SHÍ og önnur félög stúdenta. Nú eru þessar skrifstofur fluttar í bygginguna sem heitir Háskólatorg og er haganlega fyrir komið milli aðalbyggingar háskólans og íþróttahússins. Páll Skúlason rektor hvatti til þess að reisa þessa miðstöð í hjarta háskólahverfisins og iðar hún jafnan af lífi þótt annað hafi einkennt hana í gær vegna farsóttarinnar. Frá Háskólatorgi er unnt að komast í göngum undir Suðurgötu í húsið Veröld eða Vigdísarhús, vestan götunnar. Þar fyrir norðan rís nú hús íslenskunnar sem er sérhannað til að hýsa og sýna þjóðardjásnið, handritin. Er löngu tímabært að búa þeim stað við hæfi.

Handbok-studenta-1994-2033_.t44bcea01.m600.w.4swatermark.tif.x6e3cpkCBpqAenlJ9Stúdentaheimilið við Hringbraut (mynd Háskóli Íslands).

Hótel Sögu í Bændahöllinni, eign íslenskra bænda, var lokað 1. nóvember 2020 vegna farsóttarinnar. Hugmynd hefur verið hreyft um að breyta húsinu í elliheimili. Hún verður væntanlega rædd til hlítar en allt frá því ég var í háskólanum fyrir rúmri hálfri öld hafa þeir sem huga að aðstöðu fyrir starfsemi skólans eða nemendur hans velt fyrir sér hvort þetta mikla hús ætti ekki að verða hluti háskólahverfisins. Nú í desember eru 56 ár liðin frá því að allir starfsmenn samtaka bænda sameinuðust þar undir einu þaki. Bændasamtökin buðu þessa miklu fasteign sína til sölu árið 2014 en eiga hana enn. Þriðju hæð hússins nýta samtökin fyrir skrifstofur sínar en að öðru leyti nýtti hótelið það.

Stúdentar við Háskóla Íslands minntust jafnan 1. desember, fullveldisdagsins, með samkomu og dansleiks.

Hundrað ára fullveldisafmælisins var minnst á glæsilegan hátt um land allt árið 2018. Hver kynslóð fagnar deginum á þann hátt sem hún telur hæfa. Þetta ber að gera án þess að draga menn í dilka. Fullveldið er sameign allrar þjóðarinnar, án þess dafnar hún ekki. Hvernig hún kýs að nota það í samskiptum sínum við aðrar þjóðir er álitamál á líðandi stundu og getur leitt til harðra pólitískra deilna eins og gerst hefur hvað eftir annað undanfarin 102 ár.

Íslenskur háskóli var hluti fullveldisbaráttunnar á sínum tíma. Hann kom til sögunnar árið 1911 og verður því 110 ára á næsta ári. Það er og verður mikilvægur hluti íslensks fullveldis að hér sé öflug æðri menntun þótt hún verði sífellt alþjóðlegri og dafni ekki nema í samvinnu við annarra þjóða menn.