26.3.2021 9:34

Hart sótt að samkeppniseftirliti

Samkeppniseftirlitið sætir harðri gagnrýni stjórnenda fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði.

Samkeppniseftirlitið (SKE) á undir högg að sækja til sjávar og sveita.

Í Markaðnum fylgiblaði Fréttablaðsins birtist 17. mars 2021 grein eftir Val Þráinsson, aðalhagfræðing SKE undir fyrirsögninni: Samkeppni í matvælaframleiðslu styður við fæðuöryggi. Kenning aðalhagfræðingsins er að með virkri samkeppni sé stuðlað að framboði landbúnaðarafurða, nýsköpun, þjónustu og hag neytenda og bænda.

Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni, svaraði grein aðalhagfræðingsins vefsíðu Fréttablaðsins 19. mars og sagði hann reisa kenningu sína á skoðun prófessors við Exeter-háskóla í Bretlandi sem hefði tekið saman „tækninótu“ fyrir Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) um „stöðu virðiskeðja á bómullarmarkaði í Sunnanverðri Afríku (e. Sub-Saharan Africa) og tekur sérstök dæmi frá Malaví, Zambíu og Fílabeinsströndinni. Ennfremur er vísað til rannsókna á kaffimarkaðnum í Rúanda, sykurmarkaðnum í Malaví og Suður-Afríku og markaði með áburð í Kenýa. Því næst er vísað til hugsanlegra samkeppnisbrota fyrir lauk á markaðnum í Indlandi og ólögmætra samninga matvælafyrirtækja í Botsvana,“ segir Erna.

Því miður bendir margt til þess að SKE líti þannig á að hlutverk eftirlitsins sé að færa kenningar um það sem talið er skila árangri við allt aðrar aðstæður en hér í innlendan búning og beita þeim síðan jafnvel þótt sýnt sé að leiði til vandræða og óvissu fyrir neytendur eins og nú blasir við í Rangárþingi ytra þar sem rekstur matvöruverslunar er í uppnámi vegna afskipta SKE sem telur að efla þurfi samkeppni milli verslana á Hellu og Hvolsvelli.

Competition_advantage1Í frétt Morgunblaðsins í dag (26. mars) segir að Guðmundur Kristjánsson, forstjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Brims, hafi verið ómyrkur á aðalfundi fyrirtækisins 25. mars þegar hann gagnrýndi SKE „harkalega og fullyrti að með framgöngu sinni væri stofnunin endurtekið að veikja samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja sem ættu í harðri samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum“.

SKE tefði „eðlilega og sjálfsagða viðleitni fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi til að styrkja sig í erfiðri samkeppni á erlendum mörkuðum með afurðir sínar með tilefnislausum bréfaskriftum, fyrirspurnum og lagalegum vífilengjum án þess nokkru sinni að þurfa að sýna fram á hvaða hagsmuni eftirlitið sé að verja“.“. Þetta geri SKE jafnvel þótt alþjóðlegir mælikvarðar sýni að samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi sé ekki óeðlileg. Stærstu alþjóðlegu fyrirtækin í fiskeldi og sjávarútvegi hefðu stækkað gríðarlega og að hvert þeirra 13 stærstu á heimsvísu velti meiri fjármunum en öll íslensku sjávarútvegsfyrirtækin til samans. Stærstu félögin veltu nærri fimmfalt á við íslensku útgerðina, segir í frétt Morgunblaðsins.

SKE sætir harðri gagnrýni stjórnenda fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði. Að sókn SKE gegn þessum fyrirtækjum með röksemdum eins og þeim sem sjá mátti í fyrrnefndri grein aðalhagfræðings eftirlitsins gagnist íslenskum neytendum eða auki fæðuöryggi þeirra er langsótt svo að ekki sé meira sagt.