Harðstjórar hervæðast
Öllum er ljóst að Pútin gerir sér ekki ferð til þessa fátæka harðstjórnarríkis nema vegna þess að hann þarf aðstoð frá Kim til að geta haldið áfram að berjast í Úkraínu.
Leiðtogar tveggja útlagaríkja, Valdimir Pútin Rússlandsforseti og Kim Jong-un einræðisherra í Norður-Kóreu, rituðu undir samstarfssamning miðvikudaginn 19. júní þar sem heitið er gagnkvæmri aðstoð standi annað hvort ríkið frammi fyrir „árás“. Báðir telja þeir sig eiga í vaxandi útistöðum við Vesturlönd.
Óljóst er hvað segir nákvæmlega í samningnum en hann staðfestir að tengsl ríkjanna hafa aldrei verið nánari frá lokum kalda stríðsins. Bæði Pútin og Kim sögðu að uppfærslan á samvinnu þeirra væri mikil og hún næði til öryggismála, viðskipta, fjárfestinga, menningar- og mannúðarmála. Nú eru 24 ár liðin frá því að Pútin var síðast í Norður-Kóreu.
Öllum er ljóst að Pútin gerir sér ekki ferð til þessa fátæka harðstjórnarríkis nema vegna þess að hann þarf aðstoð frá Kim til að geta haldið áfram að berjast í Úkraínu. Rússar þarfnast skotfæra frá N-Kóreu og ef til vill fá þeir einnig liðsauka við herafla sinn. Kim sendir þegna sína til alls kyns verkefna erlendis, fái hann sjálfur greitt fyrir það. Í hans augum eru íbúar N-Kóreu vinnuafl í þjónustu fjölskyldu hans. Sviðsetningar með brosandi, glaðværu fólki til að hylla Pútin sýndu að til þeirra voru kallaðir tugir þúsunda þegna Kims með fyrirmælum um að leika listir sínar eða sýna hernaðarmáttinn.
Allt minnti þetta óþægilega á skrautsýningar nazista í aðdraganda annarrar heimsstyrjaldarinnar þegar tugir þúsunda fóru skipulega fram hjá heiðursstúku foringjanna sem böðuðu sig í eigin dýrð og valdi.
Valdimir Pútin og Kim Jong-un 19. júní 2024.
Kim faðmaði Pútin á flugvellinum að kvöldi þriðjudagsins 18. júní og þeir óku saman í langri bílalest inn í höfuðborgina Pjongjang sem var skreytt með risavöxnum rússneskum fánum og myndum af Pútin og einræðisherrunum saman. Að morgni miðvikudagsins var Pútin fagnað á aðaltorgi borgarinnar. Þar voru börn með blöðrur og fólk í rauðum, hvítum og bláum bolum sem myndaði þúsundum saman raðir í rússnesku og n-kóresku fánalitunum. Hvar sem Pútin fór hrópaði múgurinn: Velkominn Pútin! og veifaði blómum og fánum.
Mynd var send út frá upphafsræðum á fundi þeirra og þar þakkaði Pútin gestgjafa sínum fyrir stuðninginn í Úkraínu þar sem háð væri „orrusta gegn heimsvaldasinnaðri drottnunarstefnu Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra gegn Rússneska sambandsríkinu“. Pútin fór fögrum orðum um tengsl þjóðanna frá því að sovéski herinn barðist við japanska herveldið á Kóreuskaga í annarri heimsstyrjöldinni og sovéskir ráðamenn studdu forfeður Kims í Kóreustríðinu fyrir rúmum 70 árum.
Pútin minnti Kim með öðrum orðum á að hann ætti Rússum blóðuga skuld að gjalda í styrjöld gegn Bandaríkjamönnum og fylgiríkjum þeirra eins og Suður-Kóreu og Japan. Hvort Pútin vill að þessi skuldi sé aðeins goldin með stuðningi við Rússa í Úkraínu eða hvort N-Kóreumenn hefji átök við nágranna sína til að ögra þeim og þar með Bandaríkjamönnum kemur í ljós.
Síðari kostinn er ekki unnt að útiloka. Þá stæðu Rússar í stríði á meginlandi Evrópu, Íranir stæðu að baki stríði í Mið-Austurlöndum og N-Kóreumenn herjuðu í Asíu. Þriðja heimsstríðið yrði hafið í því skyni að þrengja að lýðræðisþjóðum undir forystu Bandaríkjamanna.