Harðstjóra steypt af stóli
Allar ófarir Assads nú má í raun rekja til 7. október 2023 þegar Hamas framdi illvirkin ógurlegu í Ísrael og kveikti ófriðarbálið sem enn logar fyrir botni Miðjarðarhafs.
Uppreisnarmenn undir forystu róttækra íslamista tilkynntu að morgni sunnudagsins 8. desember að þeir hefðu hafið innreið í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, eftir leiftursókn í landinu sem hófst 27. nóvember. Þeir sögðust hafa hrakið Bashar al-Assad úr landi eftir að hafa stjórnað í 24 ár með harðri hendi. Einræðisherrann leitaði hælis sem pólitískur flóttamaður í Rússlandi.
Frásagnir af hraðri atburðarásinni sem leiddi til falls harðstjórans og undrunin yfir hve auðvelt reyndist að hrekja hann úr landi og svipta fjölskyldu hans alræðisvaldi, sem hún hafði haft í 54 ár, minna nokkuð á undrunina yfir hruni Berlínarmúrsins í nóvember 1989. Söguleg þáttaskil komu umheiminum í opna skjöldu.
Bashar al-Assad, Vladimir Pútin og Sergei Shoigu, þáv. varnarmálaráðherra Rússa, í Damaskus árið 2020.
Rússar og Íranir hafa stutt Bashar al-Assad í 13 ára borgarastríði en hvorki Vladimir Pútin né erkiklerkurinn í Íran ráða nú yfir hernaðarmætti til að halda lífi í stjórn Assads og þess vegna tókst með leiftursókn vígreifra, hraðskreiðra jeppamanna að fella stjórn hans.
Meira en hálf milljón manna hefur fallið í borgarastríðinu sem hófst árið 2011 í Sýrlandi þegar kom til uppreisna gegn einræðisherrum víða í arabaheiminum. Rússar komu Assad þá til hjálpar.
Sagt var að Pútin óttaðist að röðin kæmi að mótmælum gegn sér gæti ekki að minnsta kosti einn einræðisherra haldið völdum með beitingu hervalds. Árið 2015 sendi Pútin flugher sinn á vettvang í Sýrlandi og festi hann stjórn Assads enn í sessi. Rússar komu sér upp flotahöfn í sýrlensku hafnarborginni Tartus en í fréttum segir að þeir hafi nú hypjað sig þaðan. Pútin getur ekki lengur hreykt sér af því að hafa náð lykilstöðu fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann á fullt í fangi með hernaðinn í Úkraínu.
Sýrland var mikilvægur hlekkur í óvinakeðjunni sem Íranir skipulögðu umhverfis Ísrael. Um landið fóru írönsk hergögn til Hezbollah-hryðjuverkasamtakanna í Líbanon og þau studdu Assad í Sýrlandi. Ísraelar hafa nú dregið vígtennurnar úr Hezbollah og gert vopnahlé við samtökin.
Allar ófarir Assads nú má í raun rekja til 7. október 2023 þegar Hamas framdi illvirkin ógurlegu í Ísrael og kveikti ófriðarbálið sem enn logar fyrir botni Miðjarðarhafs.
Eftirleikur hryðjuverkanna 7. október 2023 flækist enn vegna óvissunnar um hvað tekur við í Sýrlandi. Ísraelar höfðu lært að lifa við hlið Assad-fjölskyldunnar í rúma hálfa öld. Nú veit enginn hvað gerist og hefur her Ísraels þegar fyllt tómarúm milli sín og hers Sýrlands á landamærum ríkjanna í Gólanhæðum.
Bandaríkjamenn segjast ekki ætla að yfirgefa Kúrda í Norðaustur-Sýrlandi þar sem stunduð er olíu- og gasvinnsla. Eftir fall Assads gerði bandaríski flugherinn árásir á bækistöðvar hryðjuverkamanna í Sýrlandi. Ísraelski flugherinn réðist á vopnabúr og efnavopnaverksmiðjur.
Blóðbað kann að verða í Sýrlandi í höndum öfgamanna íslamista. Örlög Líbíu hræða. Sýrlenskur almenningur fagnar þó falli alræðisstjórnarinnar. Nú verða fangelsi opnuð og grimmd og spilling valdhafa í skjóli Rússa og Írana afhjúpuð.