18.10.2017 10:11

Hannes Hólmsteinn ræðir bankahrunið

Íslenska samfélagið hefur náð nýjum efnahagslegum styrk. Í hruninu varð hins vegar siðrof sem setur enn svip á þjóðlífið og stjórnmálabaráttuna eins og við sjáum nú í öðrum þingkosningunum á einu ári.

Húsfyllir var á fundi Sagnfræðingafélagsins í hádegi þriðjudags 17. október þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor flutti fyrirlestur í sal Þjóðminjasafnsins um bankahrunið í sögulegu ljósi. Hann taldi fróðlega skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis ekki skýra bankahrunið að fullu. Nefndin teldi bankana hafa vaxið of hratt og orðið of stóra. Það væri nauðsynlegt skilyrði fyrir hruni þeirra en ekki nægilegt.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor flytur erindi um bankahrunið í sögulegu ljósi.

Hannes kvað fimm ákvarðanir erlendis hafa ráðið úrslitum um, að fyrirsjáanleg kreppa á Íslandi varð að hruni: Erlendir vogunarsjóðir hefðu ráðist á veikasta dýrið í hjörðinni; evrópskir seðlabankar hefðu stöðvað alla lausafjárfyrirgreiðslu við Ísland vegna gremju yfir íslensku bönkunum; Bandaríkjamenn hefðu litið svo á, að Ísland væri ekki lengur á áhrifasvæði þeirra; Breska Verkamannaflokksstjórnin hefði bjargað öllum breskum bönkum nema þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, og með því fellt Kaupþing á Íslandi; Breska Verkamannaflokksstjórnin hefði sett hryðjuverkalög á Ísland.

Undir þessi sjónarmið má taka. Að Bandaríkjamenn hafi ekki talið Ísland á áhrifasvæði sínu er ekki rétt sjónarhorn á afstöðu bandaríska seðlabankans til Íslands á þessu tíma.

Á fjórum ráðstefnum sem Varðberg hefur haldið á einu ári með sérfræðingum í öryggismálum hefur skýrst að á allt fram til þess að NATO og Bandaríkjamenn tóku að huga að vörnum Evrópu og Norður-Atlantshafs að nýju á árinu 2014, eftir innlimun Rússa á Krímskaga, skipti Norður-Atlantshafið og þar með Ísland, Grænland og Noregur engu í hættu- og öryggismati bandarískra stjórnvalda.

Hvort sem Bandaríkjastjórn lítur á Ísland á áhrifasvæði sínu eða ekki, skiptir Ísland miklu í varnarstefnu Bandaríkjastjórnar telji hún nauðsyn aðgerða á Norður-Atlantshafi. Málum var ekki háttað á þann veg haustið 2008 þegar tvö ár voru liðin frá brottför varnarliðsins. Áhugi bandarískra stjórnvalda á Íslandi var annar en áður þegar hér voru 5.000 bandarískir hermenn og mikill og dýr tækjabúnaður – það liggur í augum uppi.

Ragnar Önundarson, sem átti ríkan þátt í gerð neyðarlaganna í október 2008, var á fundi Sagnfræðingafélagsins. Hann hreyfði þeirri skoðun hvort við aðstæðurnar sem sköpuðust í alþjóðlegu lánsfjár- og bankakreppunni á árinu 2008 hefði það ekki verið lán í óláni að ekki fékkst fyrirgreiðsla frá útlöndum til að halda íslensku bönkunum á floti til dæmis undir forsjá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Hver hefði framtíð okkar orðið þá?

Þetta er athyglisvert sjónarmið. Með því að líta til þess hvernig AGS hefur hagað sé gegn Grikkjum má geta sér til um að Íslendingar hefðu verið neyddir til að taka að sér að halda bönkunum á floti með töku neyðarlána, skattpíningu og öllu sem henni fylgir. Hér kom AGS ekki til sögunnar fyrr en þjóðarskútunni hafði verið bjargað með neyðarlögunum.

Íslenska samfélagið hefur náð nýjum efnahagslegum styrk. Í hruninu varð hins vegar siðrof sem setur enn svip á þjóðlífið og stjórnmálabaráttuna eins og við sjáum nú í öðrum þingkosningunum á einu ári.