28.4.2021 9:46

Handritin í nýrri umgjörð

Allt fellur þetta að áformum um nýja umgjörð um rannsóknir og sýningu á handritunum í húsi íslenskra fræða sem nú er fokhelt við hlið Þjóðarbókhlöðunnar.

Í tilefni að því að 21. apríl 2021 voru 50 ár liðin frá endurkomu fyrstu handritanna til Íslands frá Danmörku var sýnd sjónvarpsmynd sem brá ljósi á sögu handritamálsins. Þar var skýrt dregið fram hve mikið hitamál afhending handritanna var í Danmörku og hve hart var gengið fram af hálfu þeirra sem vildu ekki afhenda þau til Íslands.

Í tengslum við afmælið var rætt við Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í danska blaðinu Kristelig Dagblad en þáverandi ritstjóri þess, Bent A. Koch, var í hópi eindregnustu stuðningsmanna afhendingar handritanna á sínum tíma.

G6D11JQFIHús íslelnskra fræða (mynd: Árnastofnun).

Samkvæmt samkomulagi milli danskra og íslenskra stjórnvalda eru um 1.400 handrit enn í Danmörku. Endanleg skipting handritanna var afgreidd árið 1986 og síðustu tvö handritin voru afhent við athöfn í hátíðarsal Háskólans 20. júní 1997. Viðtalið við Lilju D. Alfreðsdóttur í danska blaðinu var endursagt hér á þann hátt að hún hefði ítrekað að hún vildi afganginn, það er handritin 1.400, til baka hingað til lands. Birtist meðal annars frétt um þetta á bls. 2 í Fréttablaðinu 20. apríl 2021.

Sveinn Einarsson, leikstjóri og rithöfundur, túlkaði ummælin á þann veg í Morgunblaðinu 27. apríl að krafist yrði að fleiri handrit úr hópi þeirra sem eftir urðu í Kaupmannahöfn kæmu til Íslands. Taldi hann „ekki sæmilegt“ að setja fram slíkar kröfur. Ekki væri óskynsamlegt að eiga í Kaupmannahöfn „aukaglugga að umheiminum“ fyrir handritin og fyrir Íslendinga væri hagur að því að „fræðastörfum sem tengjast okkar menningararfi sé sinnt sem víðast um heim“.

Um leið og tekið er undir þessi orð er því fagnað að á bls. 2 í Fréttablaðinu birtist 27. apríl frétt um að Lilja D. Alfreðsdóttir vildi ekki brjóta upp samninginn um skiptingu handritanna heldur yrðu fleiri þeirra lánuð hingað til lands „en ekki gefin“ eins og segir í Fréttablaðinu. Haft er eftir mennta- og menningarmálaráðherra:

„Við munum að sönnu standa við okkar skuldbindingar og virða gerða sáttmála. Fyrir mér snýst málið ekki um eignarhald heldur skyldu okkar til að auka veg og virðingu þessa menningararfs og það gerum við með því að sýna handritin, ræða þau og rannsaka og leyfa sögu þeirra að þróast og fylgja tímanum.“

Allt fellur þetta að áformum um nýja umgjörð um rannsóknir og sýningu á handritunum í húsi íslenskra fræða sem nú er fokhelt við hlið Þjóðarbókhlöðunnar. Þá ber einnig að minnast þess að nú er unnið að verkefninu ritmenningu íslenskra miðalda (RÍM), rannsóknum sem varða uppruna handritanna hér á landi og gerð þeirra.

Í grein sinni bendir Sveinn Einarsson á nauðsyn þess að farið sé með sögu handritamálsins á þann veg að satt og rétt sé skýrt frá öllu sem varðar samskipti okkar og Dana. Hann bendir á greinilega misfellu í frásögn af úrslitafundi fyrir 21. apríl 1961 [rangt í upphaflegri útgáfu pistils: 1971] sem birtist á vefsíðu utanríkisráðuneytisins þrátt fyrir fyrri leiðréttingu. Að fara rétt með staðreyndir skiptir ekki minna máli en virða gerða samninga um handritin.