17.11.2020 14:23

Hanating um norrænu skýrsluna

Hanating heitir sameiginlegur umræðuvettvangur Svía og Finna um varnar- og öryggismál. Er stofnað til umræðna til skiptis í Svíþjóð og Finnlandi.

Hanating heitir sameiginlegur umræðuvettvangur Svía og Finna um varnar- og öryggismál. Er stofnað til umræðna til skiptis í Svíþjóð og Finnlandi. Hanating 2020 var í ár á vegum sænsk-finnsku menningarstofnunarinnar Hanaholmen sem einnig heldur úti menningarhúsi með sama nafni í Finnlandi.

Maxresdefault_1605622862100Loftmynd af menningarmiðstöðinni Hanaholmen. Því miður var ekki unnt að funda þar vegna veirunnar. Hanating var þess í stað á netinu.

Að þessu sinni var fyrirsögn málþingsins: The Future of Nordic Cooperation in Foreign and Security Policy – Framtíð norrænnar samvinnu í utanríkis- og öryggismálum.

Í kynningu á málþinginu sem fór fram á netinu í morgun (17. nóvember) milli 08.00 og 10.00 á ísl. tíma segir:

„Hernaðarleg samvinna Svía og Finna er oft talin til fyrirmyndar en minni athygli er beint að borgaralegri samvinnu og samfélagsöryggi auk almannavarna eins og að þeim er staðið um þessar mundir. Nú erum við einmitt á tímamótum gagnvart nýrri og annars konar ógn sem krefst nýrrar samvinnu milli landa um samfélagsöryggi eins og sést best á kórónafaraldrinum sem nú geisar.

Í Stoltenberg-skýrslunni svonefndu frá 2009 er að finna ýmsar tillögur um hvernig treysta megi norrænt samstarf í varnar- og öryggismálum og þegar hafa ýmsar þessara tillagna komið til framkvæmda. Nú siglir önnur skýrsla í kjölfarið. Að þessu sinni snýst hún um samfélagslegt öryggi en minni athygli er beint að hervörnum. Í júlí 2020 lagði höfundurinn, Björn Bjarnason, fram skýrslu sína með tillögum um hvernig haga skyldi nánari norrænni samvinnu í varnar- og öryggismálum á komandi árum.“

Fundurinn fór fram með Zoom-búnaði og um 240 manns skráðu sig á hann þegar mest var. Áheyrendur gátu sent spurningar til ræðumanna á netinu.

Teija Tiilikainen, forstjóri European Centre of Excellence for Countering Hybrid Threats í Helsinki, stjórnaði fundinum.

Varnarmálaráðherrarnir Antti Kaikkonen, Finnland, og Peter Hultqvist, Svíþjóð, fluttu ræður. Þar sem þeir áréttuðu samstarf þjóða sinna í varnarmálum sem verður sífellt nánara. Báðir minntust þeir á nýgerðan þríhliða samning við Norðmenn um loftvarnir á norðurslóðum. Þá er samstarf ríkjanna við Bandaríkin og NATO ráðherrunum ofarlega í huga.

Að loknum ræðum ráðherranna kynnti ég skýrslu mína um norræna samvinnu í utanríkis- og öryggismálum.

Þá tóku til máls formenn varnarmálanefnda þinga Finnlands og Svíþjóðar:

Ilkka Kanerva, Finnlandi, og Pål Jonson, Svíþjóð.

Loks höfðu stutta framsögu þrír norrænir fræðimenn:

Mikkel Runge Olesen, frá Dönsku alþjóðamálastofnuninni, DIIS, Kristin Haugevik, frá Norsku alþjóðamálastofnuninni, NUPI, og Björn Fägersten, frá Sænsku alþjóðamálastofnuninni, UI.

Í lokin voru pallborðsumræður og svöruðum við meðal annars spurningum sem áheyrendur sendu inn á netið. Málþinginu lauk rétt rúmlega 10.00.

Sem skýrsluhöfundur get ég mjög vel unað við þá einkunn sem tillögur mínar fengu.