18.7.2023 9:45

Hamsturshjól Viðreisnar

Í grein sinni er Hanna Katrín föst í því hamsturshjóli eða apakrukku að stjórnvöld haldi „mikilvægum upplýsingum“ kerfisbundið frá almenningi.

  • Depositphotos_92419644-stock-illustration-businessman-in-a-hamster-wheel

Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, skrifar flokkspistil í Morgunblaðið í dag (18. júlí). Í upphafi minnir hún á að mörg þekkjum við það líklega „að hamast eins og hamstur á hjóli við hin ýmsu verkefni sem dúkka upp og ljúka svo vinnudeginum án þess að hafa komist í að sinna þessu eina máli sem var á dagskránni þann daginn“.

Þessi lýsing á vel við þegar litið er til málflutnings stjórnarandstöðunnar. Hún þorir ekki að sleppa því sem hún hefur af ótta við það sem þá kynni að gerast. Nota má aðra líkingu úr dýraríkinu:

Hver er besta aðferðin til að handsama apa? Settar eru hnetur í krukku. Apinn setur lófann ofan í krukkuna og fyllir hnefann. Með krepptan hnefa getur hann ekki dregið hendina upp úr krukkunni. Honum kemur ekki til hugar að opna lófann heldur situr fastur við krukkuna.

Í grein sinni er Hanna Katrín föst í því hamsturshjóli eða apakrukku að stjórnvöld haldi „mikilvægum upplýsingum“ kerfisbundið frá almenningi. Hún treystir sér ekki að taka til við að ræða annað en þetta:

  1. Að ekki sé skipuð rannsóknarnefnd til að kanna margrannsakaða sölu hluta ríkisins í Íslandsbanka sem skilaði ríkissjóði mun meira í aðra hönd en við var búist. Á hinn bóginn fór margt í handaskolum við framkvæmdina eins og frá hefur verið skýrt í skýrslum ríkisendurskoðunar og fjármálaeftirlitsins.
  2. Að enn skorti upplýsingar í Lindarhvolsmálinu þótt hálfunnin greinargerð setts ríkisendurskoðanda hafi verið birt í óþökk ríkisendurskoðunar sem telur birtingu ólögmæta, birt hafi verið hálfkarað skjal. Birtingin komi óorði á ríkisendurskoðun. Settur ríkisendurskoðandi hefur kært málið til ríkissaksóknara. Þingnefnd liggur enn á skýrslu ríkisendurskoðunar um starfsemi Lindarhvols sem kom út í apríl 2020.

Stjórnarandstaðan er föst við þessi mál eins og hamstur við hjól eða api við krukku. Grein Hönnu Katrínar sannar það.

Hún segir réttilega að í báðum þessum málum sé um „að ræða gríðarlega fjárhagslega hagsmuni almennings“ en lætur þess ógetið að einkenni þeirra beggja er að sölur ríkiseignanna skiluðu ríkissjóði mun meiru en áætlað var áður en til þeirra var gengið.

Undir lok greinar sinnar rær Hanna Katrín enn og aftur á gamalkunn mið sín þegar hún tekur að rægja íslensku krónuna í von um að auka fylgi Viðreisnar með því að laða fólk til stuðnings við upptöku evru.

Miðað við verklagsreglur evrumanna þurfa Íslendingar fyrst að breyta stjórnskrá sinni, síðan að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu að sótt verði um ESB-aðild, þá að ná samkomulagi við ESB um aðildina og loks að sætta sig við evruna áður en þeir kasta krónunni fyrir hana. Þegar Svíar gengu í ESB 1. janúar 1995 skuldbundu þeir sig til að taka upp evru, þeir höfnuðu því í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir 20 árum, árið 2003. Þeir eru enn án evru.

Það er skiljanlegt að Viðreisn kjósi að halda sig við hamsturshjólið og apakrukkuna. Evru-stefna flokksins er of langsótt til að vera trúverðug.