5.7.2018 9:56

Hámarkshraði hitamál í Frakklandi

Líklegt er að viðhorfskönnun hér sýni sama og í Frakklandi: almennt vilji menn ekki lækka hámarkshraðann fái þeir sjálfir einhverju um það ráðið.

Frá og mð 1. júlí 2018 er hámarkshraði í Frakklandi 80 km á klukkustund á vegum eins og þeim sem algengastir eru hér á landi, það er tvær akgreinar hvor á móti annarri án vegriðs. Ákváðu frönsk yfirvöld að lækka hraða úr 90 km í 80 km til að minnka hættu á slysum, minni hraði stytti hemlunarvegalengd og minnki þannig hættu á árekstrum.

004ebe811582f1e1c0133e9cc7120e32fcb189a9f0b61ca60f8ec9e75e96fc42Skipt um skilti við lækkun hámarkshraða í Frakklandi.

Fyrir og eftir að lækkun hraðans tók gildi hafa frönsk stjórnvöld beitt sér fyrir mikilli kynningar- eða áróðursherferð. Alls falla 400.000 km langir vegir í Frakklandi undir nýju regluna. Edouard Philippe forsætisráðherra viðurkenndi að ekki væri um vinsæla ákvörðun að ræða en við það yrði að una því að athuganir sýndu að með henni mætti líklega fækka dauðsföllum í umferðinni um 400 á ári. Markmiðið væri ekki að ergja ökumenn og farþega þeirra heldur auka öryggið. Þegar ráðherrann var spurður hvort ekki yrði tekið mildilega á hraðabrotum að minnsta kosti fyrstu dagana svaraði hann: „Lög eru lög, þeim ber að hlíta.“

Skoðanakönnun sýnir að 74% aðspurðra Frakka eru óánægðir með þessa breytingu. Lesa má athugasemdir ökumanna á vefsíðum og segja þeir hættuna á að sofna undir stýri aukast, athygli beinist að öðru en akstrinum o. s. frv.

Í Morgunblaðinu í dag (5. júlí) má lesa frétt um að hér á landi ætli samgöngustofa að bæta við spurningu í árlega viðhorfskönnun sína og spyrja um skoðun fólks á lækkun hámarkshraða. Má rekja þetta, að sögn blaðsins, til þess að fyrstu fjóra mánuði ársins hafi framanákeyrslum fjölgað mikið. Vitnar Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri samgöngustofu, til þess að sérfræðingar segi „að ódýrasta og áhrifaríkasta aðferðin við að fækka slysum sé að lækka hámarkshraða“.  Samskiptastjórinn bætir svo við: „Á móti er þetta mjög pólitísk ákvörðun að lækka eða hækka hámarkshraða á vegum.“

Aukin umferð á þjóðvegunum og fjölgun ökumanna sem hafa litla eða enga reynslu af akstri við íslenskar aðstæður kallar vissulega á ný viðbrögð þeirra sem láta sér annt um umferðaröryggi.

Líklegt er að viðhorfskönnun hér sýni sama og í Frakklandi: almennt vilji menn ekki lækka hámarkshraðann fái þeir sjálfir einhverju um það ráðið enda séu þeir menn til að hafa stjórn á sínum bíl á 90 km hraða. Sérfræðingar eiga ekki síðasta orðið um þetta heldur stjórnmálamenn. Óhjákvæmilegt er að málið verði rætt á þeirra vettvangi samhliða öðrum samgöngumálum.