14.4.2025 12:25

Hálkveðnar vísur utanríkisráðherra

Vandinn við allar yfirlýsingar utanríkisráðherra um allt sem varðar ESB eru svo óljósar að þær vekja fleiri spurningar en þær svara. Þetta er hættulegt í umræðum um stöðu þjóðarinnar og stefnu ríkisstjórnarinnar.

Utanríkisráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skuldar þjóðinni skýringar á þeim orðum sínum 11. apríl á vefsíðunni Vísi að samstarf Íslands við ESB um varnarmál sé nú „farið í formlegan farveg“ og „auka þurfi stoðir Íslands í varnar- og öryggismálum“.

Þetta er haft eftir utanríkisráðherra sama dag og ráðherrann fundaði með Kaju Kallas, utanríkismálastjóra ESB og varaforseta framkvæmdastjórnar sambandsins, og Andrius Kubilius, varnarmálaframkvæmdastjóra ESB.

Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins 11. apríl um þessa fundi utanríkisráðherra með Kallas og Kubilius segir að á hafi ráðherra rætt hvernig styrkja mætti „samstarf við ESB á sviði öryggis- og varnarmála“. Þá hafi öryggismál á Norðurslóðum einnig verið „í brennidepli“.

Þarna er ekki eitt orð um „farveginn“ og fjölgun stoða Íslands í varnar- og öryggismálum.

Meginstoðirnar eru tvær: aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin. Þriðja stoðin eflist ár frá ári, það er samstarf Norðurlandanna í öryggismálum. Þá á Ísland aðild að sameiginlegu viðbragðssveitinni, JEF, sem starfar undir forystu Breta í norðurhluta Evrópu og á aðliggjandi hafsvæðum.

Thorgerdur-Katrin-with-HRVP-Kaja-Kallas-15.01.2025-MFA-picture-_0Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Kaja Kallas (mynd: utanríkisráðuneytið).

Þorgerður Katrín sagðist vilja svipað samstarf og „Norðmenn skrifuðu undir við Evrópusambandið fyrir ári síðan“.

Þarna vísar utanríkisráðherra líklega til samnings sem Norðmenn gerðu við ESB í júní 2024 um samstarf í öryggis- og varnarmálum. Þetta samstarf snýst um stjórn á hættutímum (e. crisis management), hergagnaframleiðslu, starfsemi í geimnum, vernd mikilvægra innviða og viðbrögð gegn fjölþátta ógnum. Þá er einnig gert ráð fyrir árlegum formlegum samræðum á pólitískum vettvangi auk þess sem Norðmenn hafa heimild til að taka þátt í sérgreindum ráðherrafundum á vettvangi ESB um öryggis- og varnarmál.

Er Þorgerður Katrín að hugsa um samkomulag í þessa veru? Varla ætlar hún að lofa mannafla til þátttöku í hernaðaraðgerðum eins og Norðmenn hafa gert?

Ekkert af þessu eykur „stoðir Íslands í varnar- og öryggismálum“. ESB ræður ekki yfir neinum herstyrk til að geta gert það. Samstarf við einhver ESB-ríki um vernd mikilvægra innviða og viðbrögð gegn fjölþátta ógnum kann að skila árangri sýni ESB í verki áhuga á hlutdeild í slíkum aðgerðum á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum, t.d. með því að nýta aðstöðu hér á landi til sameiginlegs eftirlits og viðbragða á þessum sviðum.

Vandinn er að allar yfirlýsingar utanríkisráðherra um allt sem varðar ESB eru svo óljósar að þær vekja fleiri spurningar en þær svara. Þetta er hættulegt í umræðum um stöðu þjóðarinnar og stefnu ríkisstjórnarinnar.

Hver veit um hvað á að kjósa varðandi ESB fyrir árslok 2027? Annars staðar á Norðurlöndunum halda stjórnmálamenn að kjósa eigi um aðild að ESB? Ætlar ríkisstjórnin að leggja tillögu um það fyrir alþingi þegar ályktun hennar um þjóðaratkvæðagreiðsluna birtist? Hvað með breytingar á stjórnarskránni? Af hverju er þetta allt skilið eftir í lausu lofti? – Og nú bætist við óvissa um ESB-varnarmálatengsl Íslands í tóntegund tilefnislauss hræðsluáróðar.