Hagsýni Kristrúnar og Trumps
Markmiðið er hið sama hjá Kristrúnu og Trump. Kristrún hannar alls konar þröskulda og reisir sér varnarveggi svo að hún standi ekki sjálf í eldlínunni, Trump tekur sjálfur slaginn með Musk.
Helsta nýmæli ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur er að setja tilmæli í samráðsgátt stjórnvalda og óska eftir tillögum um hagsýni í ríkisrekstri. Forsætisráðherra fetaði þar í fótspor Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Hann leitaði einnig út fyrir stjórnkerfið í von um að fá þar stuðning við aðgerðir til sparnaðar og aukinnar hagkvæmni í bandaríska stjórnkerfinu.
Trump fékk engan annan en stuðningsmann sinn og auðugasta mann heims, Elon Musk, í verkefnið. Nú segir vikuritið The Economist að Musk rífi bandarískar stjórnarstofnanir í tætlur eins og hann gerði við Twitter þegar hann keypti félagsmiðilinn og breytti honum í X.
Elon Musk hagræðingarstjóri Trumps með merki hagræðingarráðuneytisins.
Musk er í forystu hagræðingarráðuneytisins sem þekkt er undir skammstöfuninni DOGE. Starfsmenn DOGE fara eins og stormsveipur um skrifstofur ráðuneyta og opinberra stofnana. Hjá USAID, bandarísku þróunaraðstoðarstofnuninni, vildu menn banna starfsmönnum DOGE aðgang að rýmum fyrir öryggisvottaða. DOGE hafði slíkt að engu. Musk vill að USAID sé lokað. Forstjórinn hefur verið rekinn og fer Marco Rubio utanríkisráðherra nú beint með stjórn hennar.
Í tímaritinu Wired segir frá að 25 ára starfsmaður á snærum Musks hafi fengið óheftan aðgang að þeim kerfum bandaríska fjármálaráðuneytisins sem sýna greiðslur til næstum allra alríkisstofnana Bandaríkjanna.
Þá hafa DOGE-menn einnig lagt undir sig menntamálaráðuneyti alríkisins. Trump vill að ráðuneytinu verði lokað. Frumvarp um lagabreytingar til þess er í smíðum en Bandaríkjaþing á síðasta orðið um niðurlagningu alríkisráðuneyta. Trump telur ráðuneytið „halda að ungu fólki ósæmilegu efni um kynþætti, kynlíf og stjórnmál“.
Musk hefur látið flytja svefnbekki í alríkisbyggingu skammt frá Hvíta húsinu svo að hann og starfslið hans geti unnið myrkranna á milli. Þessari aðferð beitti Musk einnig í átaksverkefnum vegna Twitter og Tesla.
Nefndin sem Kristrún Frostadóttir skipaði til að vinna fyrir sig úr um 10.000 hugmyndum um hagsýni í ríkisrekstri á ekki að skila tillögum sínum fyrr en 28. febrúar. Eftir það eiga ríkisstjórnin og þingflokkar hennar eftir að fara yfir málið.
Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta 20. janúar 2025 en Kristrún varð forsætisráðherra 21. desember 2024. Líklegt er að menn Trumps hafi lokið hagræðingaruppskurði á bandaríska stjórnkerfinu um svipað leyti og nefnd Kristrúnar skilar tillögum sínum.
Trump og Musk vita að best sé að gera leiftursókn gegn ríkisbákninu til að minnka það. Þeim er ljóst að enginn árangur næst nema þeir séu sjálfir í fararbroddi og leggi sjálfa sig að veði. Hér er fyrst leitað til almennings og síðan til nefndar til að mynda varnarhjúp um þá sem ábyrgðina bera á öllum ákvörðunum.
Markmiðið er hið sama hjá Kristrúnu og Trump. Kristrún hannar alls konar þröskulda og reisir sér varnarveggi svo að hún standi ekki sjálf í eldlínunni, Trump tekur sjálfur slaginn með Musk.