Hagstjórn eykur bjartsýni
Sé tekið mið af þessum tölum má segja að hagstjórnin hafi skilað árangri umfram björtustu vonir.
Fréttir fjölmiðla snúast að verulegu leyti um það sem ókomið er. Þar hika menn ekki við að mála skrattann á vegginn því að sterkir litir draga að sér mesta athygli. Minna fer þó oft fyrir frásögnum sem sýna að hrakspárnar rættust ekki.
Í dag (2. mars) birtir Morgunblaðið þó forsíðufrétt um að hrakspár um efnahagssamdrátt hér á landi vegna heimsfaraldursins rættust ekki. Bráðabirgðatölur hagstofunnar sýna 6,6% samdrátt landsframleiðslu árið 2020. Útkoman er betri en bjartsýnasta spá seðlabankans sem birt var í ágúst 2020 um 7% samdrátt. Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins birtu þrjár sviðsmyndir um 8%, 13% og 18% samdrátt landsframleiðslunnar árið 2020 og var miðspáin talin líklegust.
Sé tekið mið af þessum tölum má segja að hagstjórnin hafi skilað árangri umfram björtustu vonir. Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir við blaðið að tölur hagstofunnar komi ánægjulega á óvart. Þá ekki síst í því ljósi að hagvaxtartölur ársins 2019 hafi verið endurskoðaðar til hækkunar.
Samhliða útgáfu áætlunar fyrir árið 2020 endurskoðaði hagstofan tölur vegna síðustu þriggja ára á grundvelli ítarlegri upplýsinga. Mest eru áhrif endurskoðunar á landsframleiðslu ársins 2019 en samkvæmt henni jókst landsframleiðslan á árinu um 2,6% að raungildi borið saman við 1,9% samkvæmt áður birtum tölum. Hagstofan segir að á árinu hafi útflutt ferðaþjónusta dregist saman um 74,4% á árinu 2020. Áætlað er að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi numið 3,5% á árinu 2020 borið saman við 8,0% árið 2019.
Anna Hrefna segir að efnahagsleg viðspyrna á þessu ári velti fyrst og fremst á hve hratt ferðaþjónustan taki við sér að nýju. Sama gildi um að ná niður atvinnuleysi. Varðandi áhrifin á aðrar atvinnugreinar segir Anna Hrefna að vonandi verði þau ekki langvinn. Stjórnvöld hafi ráðist í ýmsar aðgerðir til að koma í veg fyrir það. „Ef við hefðum séð fleiri gjaldþrot fyrirtækja hefði það aukið líkurnar á því að áhrifin myndu vara lengur,“ segir hún.
Allt er þetta til marks um að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar skili góðum árangri, í raun betri en bjartsýnustu spámenn vonuðu. Í nýjasta þjóðarpúlsi Gallups halda stjórnarflokkarnir sínum hlut en Samfylking, Viðreisn og Miðflokkurinn dala og 59% landsmanna segjast styðja ríkisstjórnina. Styrkur stjórnarinnar er þannig mun meiri en hrakspámenn töldu að hann yrði eftir langvinn átök við faraldurinn.
Vandræðin vegna bóluefna eru veikasta stoð hagstjórnarinnar en þar batt ríkisstjórnin trúss sitt við ESB. Eitt er að gera það við innkaup á bóluefnum annað að láta fordóma gegn bóluefninu AstraZeneca í ýmsum Evrópulöndum ráða ákvörðun um notkun þess hér.
Bretar hafa víðtækasta reynslu Evrópuþjóða af áhrifum bólusetninga og nú sýna athuganir þar að einn skammtur af annaðhvort AstraZeneca eða Pfizer bóluefnum minnkar líkur á að eldri borgarar yfir áttrætt þurfi sjúkrahúsvist vegna veirunnar um meira en 80%.