Hættur magnast fjær og nær
Aukinn viðbúnaður norska hersins er ekki síst á hafinu sem er sameiginlegt með okkur Íslendingum – í raun landamæri okkar gagnvart Rússlandi.
Í skjóli stríðsins í Úkraínu hefur einræðisherrann í Norður-Kóreu, Kim Jong-un, blásið til þess sem hann segir tilraunir með flugskeyti eða eldflaugar. Nágrönnum hans í Japan og Suður-Kóreu er nóg boðið. Flaugum er skotið frá kafbátum og einnig er um ofurhraða flaugar að ræða, þær fara um háloftin á fimmföldum hraða hljóðsins. Stórveldin ein ráða yfir slíkum hátæknivopnum. Séu þau að komast í hendur vanstillta harðstjóranum í Norður-Kóreu magnast enn hættan og spennan í nágrenni við hann.
Kínastjórn leyfir þetta enda þjónar það tilgangi lífstíðar-forsetans þar, Xi Jinping, að skapa sem mest vandræði meðal nágranna sinna í von um að það falli að áformum hans um að gleypa Tævan.
Suður-kóreaskar F-35 orrustuþotur í oddaflugi til marks um að varnir landsins hafi verið virkjaðar gegn harðstjóranum í norðri.
Við sem búum hinum megin á hnettinum fylgjumst með þessu úr fjarlægð samhliða því sem við eigum fullt í fangi með að átta okkur á hvert stefnir í hernaði í okkar eigin heimshluta. Þar beinist athyglin í sífellt meiri mæli að norðurhluta Evrópu.
Birtast áhyggjur vegna þróunarinnar til dæmis í hvatningu frá Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, til Erdogans Tyrklandsforseta um að falla frá þvergirðingshætti sínum gagnvart aðild Finna og Svía að bandalaginu.
Stoltenberg er í Tyrklandi um þessar mundir og sagði að loknum fundi með tyrkneska utanríkisráðherranum í gær (3. nóv.) að það væri brýnna en áður að ljúka aðildarferli ríkjanna á þessum hættulegu tímum „til að koma í veg fyrir misskilning eða ranghugmyndir í Moskvu“. Enginn veit hvað harðstjórinn þar gerir næst.
Stoltenberg er betur ljóst en flestum að spennan magnast í norðurhluta Evrópu. Gamlir félagar hans meðal norskra jafnaðarmanna ákváðu í byrjun vikunnar að hækka viðbúnaðarstig norska hersins. Forsætisráðherrann Jonas Gahr Støre sem var utanríkisráðherra þegar Stoltenberg gegndi embætti forsætisráðherra sagði ástandið að vísu ekki þannig að norska ríkisstjórnin teldi innrás Rússa yfirvofandi enda hefðu þeir ekki verið með hersafnað við landamæri Noregs eins og umhverfis Úkraínu fyrir einu ári á hinn bóginn væru önnur teikn á lofti og við þeim yrði að bregðast.
Þar á Støre við fjölþátta ógnir á borð við skemmdarverki á gasleiðslunum milli Rússlands og Þýskalands í efnahagslögsögum Svía og Dana 26. september 2022. Af því tilefni birtust fréttir af grunsamlegu drónaflugi á olíu- og gasvinnslusvæðum við strendur Noregs.
Aukinn viðbúnaður norska hersins er ekki síst á hafinu sem er sameiginlegt með okkur Íslendingum – í raun landamæri okkar gagnvart Rússlandi.
Fréttir berast af því að sæstrengir milli Færeyja og Hjaltlands og Hjaltlands og Skotlands hafi skaddast á þann veg að netsamband rofnaði. Að þetta gerist með nokkurra daga millibili vegna fiskiskipa er ótrúverðugt.
Fram hjá þessu verður ekki litið hér fylgi alvara yfirlýsingum um virka, borgaralega þátttöku íslenskra yfirvalda í viðleitni bandamanna okkar.