1.6.2024 10:12

Hættulegur boðskapur Höllu T.

Nú gerist það í umræðum frambjóðenda til forseta Íslands að kvöldi fyrir kjördag, að einn frambjóðandi, Halla Tómasdóttir, vegur að stefnunni sem íslensk stjórnvöld hafa fylgt gagnvart Úkraínu.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sendi her inn í Úkraínu 24. febrúar 2022 í því skyni að leggja landið undir sig, afmá það og menningu Úkraínu, afvopna þjóðina og „afnazistavæða“ stjórn og stjórnkerfi landsins. Innrásin var tilefnislaust brot á alþjóðalögum. Hún þjónaði lund einræðisherra sem vildi endurreisa rússneska keisaradæmið. Um þessar mundir grefur Pútin undan frelsi Georgíu og spornar gegn því að yfirgnæfandi þjóðarvilji til aðildar að Evrópusambandinu og NATO nái fram að ganga.

Ofríkisstefna Pútins leiddi til þess að Finnar og Svíar ákváðu að treysta öryggi sitt með því að ganga í NATO. Samstarf norrænu NATO-ríkjanna við Eystrasaltslöndin þrjú verður sífellt nánara en stjórnendur þeirra telja að takist Pútin að koma vilja sínum fram í Úkraínu snúi hann sér næst að Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Ríkin verða ekki varin nema allir bandamenn þeirra innan NATO leggi sitt af mörkum og vilji alþingis og ríkisstjórnarinnar standi til þess og þar með einnig að áform Pútins í Úkraínu nái ekki fram að ganga.

Screenshot-2024-06-01-at-10.10.40Katrín Jakobsdóttir og Halla Tómasdóttir (samsett mynd á ruv,is/Ragnar Visage).

Nú gerist það í umræðum frambjóðenda til forseta Íslands að kvöldi fyrir kjördag, að einn frambjóðandi, Halla Tómasdóttir, vegur að stefnunni sem íslensk stjórnvöld hafa fylgt gagnvart Úkraínu, tvíhliða, innan NATO og á norrænum vettvangi í krafti ályktunar alþingis.

Tékkar tóku frumkvæði að leit og kaupum á skotfærum fyrir Úkraínumenn í neyð þeirra vegna þess að Trumpistar drógu lappirnar á Bandaríkjaþingi í stuðningi við varnarbaráttu Úkraínumanna. Ákváðu stjórnir nokkurra ríkja að leggja þessu framtaki Tékka lið, þ. á m. Íslands. Minna hefur orðið úr árangri en að var stefnt, ef marka má fréttir, og nú í vikunni urðu þau þáttaskil á fundi í Prag í afstöðu NATO-ríkja sem framleiða vopn að Úkraínumönnum var heimilað að beita þeim gegn skotmörkum innan Rússlands. Fallbyssukúlurnar sem Halla Tómasdóttir vill gera að ágreiningsefni af Íslands hálfu innan NATO skipta mun minna máli fyrir stríðsreksturinn en áður.

Halla boðar að hún ætli að sitja á Bessastöðum í stöðugu „samtali“ við þjóðina og hún sagði að kvöldi 31. maí „að sér fyndist ekki sjálfsagt að kaupa vopn fyrir Úkraínumenn „án samtals“ og að það samræmdist ekki gildum Íslands,“ svo vitnað sé í Vísi. Og hún bætti við:

„Í heimi þar sem allar stórþjóðir eru að velja stríð held ég að við leggjum mest af mörkum með því að standa fyrir og velja frið. Ég hef sagt það og ég bara endurtek það að ég tel að það sé hægt að semja um hvað sem er.“

Eitt er að hlusta á orð sem þessi og ímynda sér að þarna tali frambjóðandi sem geti setið á Bessastöðum og boðað til „friðarsamtals“ eins og Halla orðaði það „frekar en að telja að við eigum bara endalaust að mata stríðsmaskínuna“. Annað er að rýna í orðin sem þarna eru sögð og draga af þeim ályktun: „Ég tel að það sé hægt að semja um hvað sem er“ sagði frambjóðandinn. Halla sló ekki einu sinni varnagla með orðinu „næstum“, hún er tilbúin að semja um allt í „friðarsamtalinu“. Annar forsetaframbjóðandi í öðru landi boðar að hann geti samið um allt: Donald Trump.

Halla Tómasdóttir hefði gott af að kynna sér það sem Salome Zurabishvili, forseti Georgíu, leggur í sölurnar til að tryggja sjálfstæði og frelsi þjóðar sinnar gegn Rússum.

Í frétt Vísis um umræðurnar 31. maí segir:

„Arnar Þór Jónsson stóð næst Höllu í afstöðu sinni til stríðsins í Úkraínu. Sagði hann að Ísland ætti ekki að hella olíu á ófriðarbál sem smáríki þótt hann hefði samúð með Úkraínumönnum.“ Og hann sagði:

„Ég tel hins vegar ljóst að staðan í Úkraínu sé orðin þannig að menn séu búnir að grafa sig býsna djúpt ofan í víglínurnar og að menn verði að fara horfast í augu við það að ef það á að halda þessu stríði áfram gangandi með skattfé Íslendinga eins og annarra þjóða þá mun það útheimta blóðfórnir Úkraínumanna áframhaldandi.“

Jón Gnarr, sem á fundum frambjóðenda segir hispurslaust það sem honum býr í brjósti, sagði að Íslendingar yrðu að passa sig á hræsni með kröfum um að ekki mætti nota stuðning landsins til hernaðaraðstoðar. „Við erum alls ekkert eins og við séum algerlega með einhverjar hreinar hendur og við viljum bara plástra og sárabindi,“ sagði hann.

Fyrir umræðurnar sýndu kannanir að Halla Tómasdóttir væri sá frambjóðandi sem helst gæti komið í veg fyrir að Katrín Jakobsdóttir yrði kjörin forseti Íslands. Strax nú að morgni kjördags (1. júní) hafa stuðningsmenn annarra en Höllu T. hoppað á stríðsvagn hennar í þeim friðsamlega tilgangi að koma í veg fyrir að Katrín sigri.

Einn þeirra sem skipti um skoðun af taktískum ástæðum segir á Vísi í morgun: „Halla fékk prik hjá mér í umræðunum á Rúv í gærkvöldi því hún var eini frambjóðandinn af sex efstu sem var á móti því að Ísland keypti vopn til manndrápa í Úkraínu.“

Eitt er að Halla Tómasdóttir gleðji andstæðinga Katrínar Jakobsdóttur innan lands; hitt er annað að gefa henni atkvæði sitt svo hún gleðji andstæðinga Úkraínu utan lands og grafi undan trúverðugleika og öryggi íslensku þjóðarinnar sem á allt undir að aðrir leggi henni vopnað lið við gæslu ytra öryggis.