Hægri sigur á Ítalíu
Flokkur Meloni jók fylgi sitt úr aðeins 4% í kosningunum 2018 í 22.5-26.5% að þessu sinni. Flokkur hennar og bandalagsflokkar hennar tveir, Lega og Forza Italia, fá 41 and 45% fylgi sem tryggir þeim hreinan meirihluta þingmanna.
Giorgia Meloni (45 ára) verður næsti forsætisráðherra Ítalíu og fyrsta konan til að gegna embættinu. Kosningabandalag hægri flokka sigraði í þingkosningunum sunnudaginn 25. september og hlaut meirihluta í báðum deildum þingsins í Róm.
Meloni leiðir þjóðernissinnaðan hægri flokk, Fratelli d‘Italía (Ítalíubræður), sem er sagður hafa post-fasískar rætur. Hvað í þeim stimpli felst er óljóst. Hann dugði ekki til að fæla kjósendur frá henni.
Óvíst er hver verður stjórnarstefna Meloni gagnvart Vladimir Pútin og hernaði hans í Úkraínu annars vegar og gagnvart Evrópusambandinu hins vegar. Ítalía er eitt skuldugasta ríki evru-svæðisins og hefur hvað eftir annað notið sérlegrar fyrirgreiðslu til að hindra upplausn evru-samstarfsins.
Giorgia Meloni þakkar kjósendum.
Flokkur Meloni jók fylgi sitt úr aðeins 4% í kosningunum 2018 í 22.5-26.5% að þessu sinni. Flokkur hennar og bandalagsflokkar hennar tveir, Lega og Forza Italia, fá 41 and 45% fylgi sem tryggir þeim hreinan meirihluta þingmanna.
Ítalski jafnaðarmannaflokkurinn, Lýðræðisflokkurinn, sem er nú annar stærsti ítalski stjórnmálaflokkurinn og leiðir stjórnarandstöðuna, viðurkenndi ósigur sinn á kosninganóttina. Velgengni Meloni og flokks hennar má að verulegum hluta rekja til þess að hún stóð utan stjórnarsamstarfsins sem rofnaði í sumar og leiddi til kosninganna nú.
Meloni hét því í sigurræðu sinni að sameina þjóðina, verða forsætisráðherra hennar allrar. Hún ætlaði að tryggja að Ítalir gætu að nýju orðið stoltir af landi sínu.
Stjórnmálaskýrendur rifja upp að aðeins fáeinar vikur séu síðan þjóðernissinnar í Svíþjóð, Svíþjóðardemókratar, unnu sigur í þingkosnum þar og urðu annar stærsti flokkur landsins.
Þá er bent á að bandamenn Meloni, Matteo Salvini leiðtogi Lega, og Silvio Berlusconi leiðtogi Forza Italia, hafi taugar til Vladimirs Pútins. Meloni sjálf hallast þó ekki á þá sveif heldur gagnrýnir stríðsrekstur Pútins harðlega og stendur með ákvörðunum á vettvangi NATO.
Líklegt er að átökin í Ítalíu verði meiri um stefnu Meloni í málefnum sem varða ítalskt samfélag en það sem snýr að alþjóða samfélaginu. Hún er íhaldssöm gagnvart kröfum áhrifamikilla hópa hvort sem um er að ræða þungunarrof eða réttindi samkynhneigðra svo að dæmi séu nefnd.
Þá er óljóst hver verður efnahagsstefna stjórnar undir hennar forystu. Þótt hún hafi áður gagnrýnt evru-samstarfið tók hún mun mildari stefnu í kosningabaráttunni og fór þar meðal annars að fordæmi Marine Le Pen í Frakklandi sem var með þeim fyrstu til að óska henni til hamingju með kosningasigurinn.
Giorgina Meloni stofnaði sjálf, árið 2012, flokkinn sem hún leiðir. Hún hafnar því alfarið að hann sé fasískur þótt andstæðingar hennar gefi henni þann stimpil. Ítalskir kjósendur veittu henni öflugan stuðning og við það situr. Hvort um grundvallarbreytingu í ítölskum stjórnmálum er að ræða eða meira af því sama: veikburða stjórn og upplausn á þingi, kemur í ljós.