12.3.2025 10:11

Hægri bylgja á Grænlandi

Danska konungdæmið er ekki í bráðri hættu eftir kosningarnar og Grænlendingar hafa ekki áhuga á að kasta sér í fangið á Trump.

Frjálslyndi hægriflokkurinn Demokraatit sigraði í grænlensku þingkosningunum miðvikudaginn 11. mars með um 30% atkvæða, 10 þingmenn. Flokkurinn fékk 9% árið 2021.

Sjálfstæðisbaráttuflokkurinn Naleraq fékk tæp 25%, 8 þingmenn (12% árið 2021).

Vinstri flokkurinn Inuit Ataqatigiit (IA) fékk 21%, 7 þingmenn (36% 2021).

Jafnaðarmannaflokkurinn Siumut fékk 14%, 4 þingmenn (29% 2021).

Hægriflokkurinn Atassut fékk 7,3%, 2 þingmenn (6,9% 2021).

Nýr flokkur, Quelleq fékk aðeins 1%.

Kjörsókn var 70,9%, alls kusu 28620. Þingmenn eru 31.

Tölurnar sýna að úrslit kosninganna eru mikið áfall fyrir fráfarandi stjórnarflokka, vinstriflokkana IA og Siumut, en Múte B. Egede, fráfarandi formaður landsstjórnarinnar, er leiðtogi IA. Vivian Motzfeldt, fráfarandi utanríkisráðherra, er í Siumut.

24908632-jens-frederik-nielsen-har-frt-demokraatit-til-stoJens-Frederik Nielsen, formaður Demokraatit.

Komi til þess að Jens-Frederik Nielsen, formaður Demokraatit, verði formaður landstjórnarinnar verður það í fyrsta sinn sem maður utan IA eða Siumut skipar það embætti. Þetta skýrir vel miklu umskiptin í stjórnmálum Grænlands.

Eftir að boðað var til þingkosninganna í janúar var engin skoðanakönnun gerð í Grænlandi. Athyglin beindist að því hvernig Donald Trump Bandaríkjaforseti talaði um Grænland og viðbrögðum grænlenskra stjórnmálamanna.

Demokraatit kynnti hugmyndir um free association, það er fullveldi Grænlands í sérstöku samningssambandi við Danmörku og Bandaríkin. Þegar dró að kjördegi sagði varaformaður flokksins að flokkurinn hefði horfið frá þessari hugmynd. Flokksformaðurinn sagðist hafa ýmislegt í handraðanum til að styrkja hlutdeild Grænlendinga í öllum ákvörðunum um framtíð þeirra og þetta myndi hann fyrst kynna í Kaupmannahöfn.

Danska konungdæmið er ekki í bráðri hættu eftir kosningarnar og Grænlendingar hafa ekki áhuga á að kasta sér í fangið á Trump.

Við stjórnarmyndun á Grænlandi eru tveir meginkostir að Demokraatit og Naleraq myndi tveggja flokka meirihluta eða Demokraatit, Siumut og Atassut setjist saman í ríkisstjórn. Slík stjórn hefur áður verið mynduð á Grænlandi en þá undir forystu Siumut.

Hafi Grænlendingar verið með hugann við grunnstoð efnahags síns og byggðanna, fiskveiðarnar, á kjördag má segja að þar hafi markaðsstefna Demokraatit haft betur gegn samfélagsstefnu Siumut við stjórn veiðanna.

Báðir flokkar eru fylgjandi kvótakerfi. Siumut vill beita kvótakerfinu sem verkfæri til að viðhalda atvinnu, byggð og þjóðlegri stjórn á fiskimiðunum. Demokratiit horfir á sjávarútveginn sem markaðskerfi sem þurfi svigrúm til að þróast og vaxa; auðurinn sem skapast nýtist samfélaginu á breiðum grunni.

Þegar upp er staðið ræður niðurstaða um heimamál stjórnarmyndun og síðan kemur að Trump.

Í Kaupmannahöfn anda menn léttar – í bili að minnsta kosti.