12.11.2023 14:50

Gyðingar útilokaðir

Sú spurning vaknar hvort ráðuneytinu beri ekki að hafa frumkvæði að athugun á gildi ferðaþjónustuleyfis sé opinberlega tilkynnt um mismunun ferðamanna í pólitískum tilgangi. 

Sagt v ar frá því í Morgunblaðinu laugaradaginn 11. nóvember að nokkrir aðilar í ferðaþjónustu hér á landi hefðu látið þau boð úr ganga að þeir ætluðu ekki að þjónusta ferðamenn frá Ísrael vegna stríðs Ísraela og hryðjuvekasamtakanna Hamas á Gazasvæðinu.

Einn þeirra sem að þessari útilokun gyðinga standa er Ingi Jón Sverrisson, stofnandi Tour.is. Fyrirtækið kynnir sig á vefsíðu sinni á þann veg að það hafi „licence to be an authorized and insured Travel Agency by the Icelandic Tourism Board“.

Ingi Jón sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hafnaði því að þjónusta ísraelska hópa „þar sem fyrirtækið kærði sig ekki um að eiga samskipti við Ísraelsmenn vegna fram­erðis þeirra í Palestínu“.

Þá ræðir blaðið við Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann segir að það sé ákvörðun hvers fyrirtækis fyrir sig hvaða hópar séu þjónustaðir. Hann vildi ekki kveða upp úr um að um lögbrot væri að ræða þegar hópi væri mismunað á þann hátt sem Tour.is gerði, en sagði að samtökin mæltu gegn því að lög væru brotin.

IMG_8597

Framkvæmdastjórinn nefnir ekki hvaða lög hann hefur í huga í svari sínu. Í þessu máli eru lög eitt. Annað eru samþykkir Samtaka ferðaþjónustunnar og siðareglur svo að ekki sé minnst á leyfið sem Tour.is hefur frá Icelandic Tourism Board og Tour.is flaggar á vefsíðu sinni til að sanna að það sé virðingarvert fyrirtæki.

Dómarar úrskurða um efni laga og hvort lög séu brotin. Um það hvort farið sé að samþykktum eða siðareglum frjálsra félagsamtaka er málefni sem fellur undir stjórn og siðanefnd viðkomandi samtaka. Þá er útgáfa opinbers leyfis til ferðaskrifstofu stjórnsýsluathöfn á ábyrgð ferðamálaráðherra.

Ráðuneyti menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra hefur undanfarið glímt við ágreining um sæmdarrétt höfundar, Muggs, vegna mynda með sögunni um Dimmalimm. Af fréttum má ráða að það vefjist fyrir ráðuneytinu að komast þar að niðurstöðu eftir að til þess var leitað.

Sú spurning vaknar hvort ráðuneytinu beri ekki að hafa frumkvæði að athugun á gildi ferðaþjónustuleyfis sé opinberlega tilkynnt um mismunun ferðamanna í pólitískum tilgangi án þess íslenska ríkið hafi skuldbundið sig til þátttöku í viðskiptabanni eða refsiaðgerðum gegn heimaríki ferðamannanna.

Um árið samþykkti meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur kveðjutillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, um viðskiptabann á Ísrael

í tilefni af afsögn Bjarkar úr borgarstjórn. Þetta bann rann út í sandinn en sætti víða undrun og skaðaði borgarstjórn meira en Ísraela.

Hatur á gyðingum birtist í ýmsum myndum. Þessi nýjasta útgáfa þess hér á vegum Tour.is skapar vanda fyrir alla ferðaþjónustu í landinu.