25.5.2021 10:14

Gunnar Bragi kveður alþingi

Sé litið til ára Gunnars Braga sem utanríkisráðherra (2013-2016) má nefna fjögur mál sem valdið hafa deilum og eiga rætur í ráðherratíð hans.

Gunnar Bragi Sveinsson, 1. varaformaður Miðflokksins, tilkynnti á dögunum að hann byði sig ekki fram til þings í kosningunum 25. september 2021. Hann hefur setið á þingi síðan 2009, fyrir Framsóknarflokkinn til 2017.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stofnaði Miðflokkinn árið 2017 eftir að hann yfirgaf Framsóknarflokkinn. Skipti hann miklu að fá Gunnar Braga í lið með sér við flokksstofnunina og hefur hann verið þingflokksformaður Sigmundar Davíðs á þessu fyrsta kjörtímabili flokksins. Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson gengu til liðs við Miðflokkinn 22. febrúar 2019. Þeir voru reknir úr Flokki fólksins vegna Klaustursmálsins árið 2018. Hefur Miðflokkurinn verið stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi síðan.

1276258Gunnar Bragi Sveinsson (mynd:mbl.is)

Sé litið til ára Gunnars Braga sem utanríkisráðherra (2013-2016) má nefna fjögur mál sem valdið hafa deilum og eiga rætur í ráðherratíð hans:

  1. Gunnar Bragi tilkynntil ESB að aðildarumsókn Íslands að sambandinu væri dregin til baka. Gagnrýnendur í hópi ESB-andstæðinga halda því fram að Gunnar Bragi hafi ekki staðið rétt að afturköllun umsóknarinnar. Hann hefði átt að leggja hana fyrir alþingi
  2. Gunnar Bragi stjórnaði hagsmunagæslu fyrir Ísland þegar þriðji orkupakkinn var á mótunarstigi innan ESB. Þá gafst færi á að setja fyrirvara af hálfu Íslands. Sem þingflokksformaður Miðflokksins skipulagði Gunnar Bragi síðan lengsta málþóf sögunnar gegn þriðja orkupakkanum vegna þess að hagsmuna Íslands hefði ekki verið gætt.
  3. Gunnar Bragi fór með samninga gagnvart ESB þegar samið var um tollalækkanir á landbúnaðarafurðum árið 2015 í forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs. Síðar snerust þeir báðir gegn þessum samningi.
  4. Gunnar Bragi var utanríkisráðherra árið 2014 þegar íslensk stjórnvöld tóku þátt í refsiaðgerðum Evrópuríkja gegn Rússum vegna hernaðar þeirra á hendur Úkraínu og innlimun Krímskaga. Í leiðara Morgunblaðsins í dag (25. maí) er gangi þess máls lýst á þennan veg:

„Skrifstofustúlka í Brussel mun þá hafa hringt í vaktmann í anddyrinu á Rauðarárstíg [þ.e. til utanríkisráðuneytisins] eftir vinnu til að tilkynna að ákveðið hefði verið í Brussel að Ísland væri orðið þátttakandi í refsiaðgerðunum út af Krímskaga. Sagan segir að vaktmaðurinn hafi verið gamall Skagamaður og því veikur fyrir skagamálum af þessu tagi. Ísland hefur síðan tapað milljörðum eða milljarðatugum árlega og ganga verður út frá að Rússar hafi fyrir löngu skilað Krímskaga eða séu um það bil að gera það. Ella sé ekkert vit í málinu.“

Þetta er dapurleg afrekaskrá. Vegna þess sem segir í leiðara Morgunblaðsins um milljarðatuga tapið vegna ákvörðunarinnar frá 2014 skal þess getið að Vladimir Pútin setti innflutningsbann á íslenskar sjávarafurðir á þessum tíma til að efla rússneska fiskvinnslu. Hafa íslensk hátæknifyrirtæki síðan selt Rússum fiskvinnslubúnað. Til að aflétta innflutningsbanninu verða menn að snúa sér til Pútins. Hitt er síðan annað mál að bann Pútins hefur ekki haldið að fullu og hefur Hvíta-Rússland verið hjáleið fyrir fisk á rússneskan markað. Alexander Lukasjenko lokaði henni líklega með flugráninu á hvítasunnudag.