10.5.2018 10:46

Gunnar Bragi í ESB-gönuhlaupi

Hitt er í sjálfu sér stórundarlegt að Gunnar Bragi skuli kjósa að draga athygli að þessu embættisverki sínu.

Þriðjudaginn 8. maí svöruðu ráðherrar óundirbúnum fyrirspurnum á alþingi. Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins og fyrrv. utanríkisráðherra, undraðist að í nýrri skýrslu utanríkisráðherra um skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins. Gunnari Braga þótti tóninn í skýrslunni nýstárlegur og spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra hvort eitthvað væri að gerast í ráðuneytinu á hans vakt, hvort menn væru eitthvað að linast í trúnni á að við ættum ekki að vera í Evrópusambandinu. Vitnaði hann í texta á bls. 13 þar sem segir:

„Tveimur árum síðar kunngerði ríkisstjórnin ESB að gert hefði verið algert hlé á viðræðunum …“

Síðan sagði Gunnar Bragi:

„Hvað er algert hlé? Ég hélt að annaðhvort væri hlé eða ekki hlé. Er ráðherrann að gefa annað í skyn í þessu riti -— og ég spyr þá: Er það hluti af díl þessara stjórnarflokka að hafa orðalagið með þessum hætti, að ekki sé skýrar kveðið á um að við erum ekki umsóknarríki og verðum ekki umsóknarríki á næstunni?“

Guðlaugur Þór hafnaði því að alfarið að lesa ætti textann á þann hátt sem Gunnar Bragi gerði. Það „væri afskaplega óskynsamlegt fyrir Ísland að gerast aðili að Evrópusambandinu“.

Þegar þessi orðaskipti eru lesin er óhjákvæmilegt að lýsa undrun yfir að Gunnar Bragi skuli vekja máls á þessu á þennan hátt.

Í fyrsta lagi lætur hann hjá líða að lesa alla setninguna á bls. 13 í skýrslunni því að í framhaldi af hinum tilvitnuðu orðum stendur: „og væri ekki litið svo á að Ísland væri umsóknarríki“. Upphrópanir hans um umsóknarríkið voru með öllu ástæðulausar hefði hann lesið textann allan.

Í öðru lagi ætti Gunnar Bragi að vita manna best til hvaða orðalags er vísað þegar talað er um „algert hlé“. Gunnar Bragi utanríkisráðherra sendi Evrópusambandinu bréf 12. mars 2015 þar sem segir í íslenskri þýðingu utanríkisráðuneytisins á þeim tíma:

„Meginþættir stefnunnar [þáv. ríkisstjórnar í ESB-málum] voru, í fyrsta áfanga, að stöðva aðildarviðræðurnar að fullu [...] Ennfremur ákvað ríkisstjórnin að víkja frá allri þátttöku í starfi sem byggist á stöðu landsins sem umsóknarríkis enda er það í samræmi við þá ákvörðun að stöðva aðildarferlið að fullu.“

Hér birtist textinn feitletraður á tveimur stöðum. Menn geta ráðið í hver sé munurinn á að „stöðva að fullu“ og gera „algert hlé“.

Um það hefur verið deilt hvort Gunnar Bragi hafi gengið nógu langt 12. mars 2015, hann hafi látið embættismennina sem stjórnuðu ESB-aðildarviðræðunum stjórna penna sínum í stað þess að draga ESB-umsóknina einfaldlega til baka.

Hvað sem því líður er augljóst að ESB-aðildarumsóknin er pólitískt dauð og verður ekki endurvakin nema þjóðin samþykki það í atkvæðagreiðslu. Hitt er í sjálfu sér stórundarlegt að Gunnar Bragi skuli kjósa að draga athygli að þessu embættisverki sínu á þessum sérkennilegu forsendum og núa eftirmanni sínum um nasir að orðalag úr bréfi hans sjálfs í skýrslu utanríkisráðuneytisins boði daður við ESB.