12.7.2023 9:34

Gullhúðun fyrir tæpa 10 milljarða kr.

Agla Eir segir að enginn rökstuðningur fyrir „gullhúðuninni“ hafi fylgt lagafrumvarpinu um NFRD á Íslandi. 

„Gullhúðun“ er það kallað þegar íslensk stjórnvöld nota eða réttara sagt misnota EES-reglur til að færa út eftirlitsvald sitt og íþyngja íslenskum fyrirtækjum með þyngra regluverki en notað er annars staðar á EES-svæðinu. Þessi árátta við framkvæmd á aðild Íslands að EES hefur hvað eftir annað sætt gagnrýni. Árið 2016 sýndi úttekt á vegum forsætisráðuneytisins að þriðjungur Evrópuregluverks hefði verið innleiddur hér með meira íþyngjandi hætti en reglurnar kröfðust.

Viðskiptaráð hefur farið í saumana á áhrifum innleiðingar svonefndrar NFRD-tilskipunar ESB, það er um birtingu fyrirtækja á ófjárhagslegum upplýsingum. Komu þessar reglur til sögunnar hér árið 2016 og telur viðskiptaráð að það hafi síðan kostað íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða króna að hér var tilskipunin látin ná til 268 fyrirtækja í stað 35 sem þurfti samkvæmt ákvæðum hennar. ESB miðar við að reglurnar gildi um 500 manna fyrirtæki en hér var valið að miða við 250 starfsmenn.

Svanhildur Hólm, framkvæmdastjóri viðskiptaráðs, rekur sögu innleiðingarinnar í grein í ViðskiptaMogga í dag (12. júlí). Voru íslensku viðmiðin sett fram að tillögu vinnuhóps sem undirbjó frumvarpið og í sátu sérfræðingar frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, ársreikningaskrá, fjármálaeftirlitinu, Félagi löggiltra endurskoðenda og Félagi bókhaldsstofa. Í framsöguræðu vakti ráðherra athygli á að sett væru ný íslensk stærðarmörk í frumvarpi hans. Íþyngjandi innleiðingin náði ekki athygli efnahags- og viðskiptanefndar þingsins. Enginn sautján umsagnaraðila um frumvarpið gagnrýndi þetta atriði.

OIP-4-

Í ViðskiptaMogga er sagt frá samtali um þetta mál í Dagmálum (sjónvarpsspjallþætti Morgunblaðsins) við Öglu Eir Vilhjálmsdóttur, lögfræðing viðskiptaráðs. Hún vann að skýrslu ráðsins um þetta mál ásamt Elísu Örnu Hilmarsdóttur, hagfræðingi hjá ráðinu.

Agla Eir segir að enginn rökstuðningur fyrir „gullhúðuninni“ hafi fylgt lagafrumvarpinu um NFRD á Íslandi. Við gerð skýrslunnar hefðu þær heyrt að stjórnvöldum hefði einfaldlega fundist að íþyngjandi reglurnar næðu til of fárra íslenskra fyrirtækja, 35 fyrirtæki næðu varla máli „við gætum bara gefið aðeins í og látið fleiri fyrirtæki fylgja þessu“. segir hún.

Í samtalinu gagnrýnir Agla Eir að við „gullhúðunina“ sé ekki gerð krafa um kostnaðar- og ávinningsmat. „Ef það hefði verið gert í þessu tilfelli, og þessar 8,2 milljónir sem þetta kostar árlega hvert íslenskt fyrirtæki sem þarf að fylgja þessu hefðu legið fyrir við þessa innleiðingu, þá dettur mér í hug að þau hefðu horft aðeins öðruvísi á hvort það væri þörf á að útvíkka gildissviðið.“

Vissulega kann þetta að vera rétt hjá lögfræðingi viðskiptaráðs. Undarlegt er þó að ofríkisárátta höfunda innlenda regluverksins skyldi ekki verða til þess að einhver umsagnaraðila frumvarpsins kveikti viðvörunarljós. Þá hefði þingnefndin ef til vill skoðað málið betur.

Í þessu efni er ekkert óumbreytanlegt. Nú hlýtur einhver þingmaður að beita sér fyrir að þessum álögum verði létt af innlendum fyrirtækjum með færri starfsmenn en 500.