19.6.2023 10:23

Guðrún verður ráðherra

Hlutur Sjálfstæðisflokksins er glæsilegur þegar litið er til þess trúnaðar sem flokksmenn, kjósendur og þingflokkur hafa sýnt konum í áranna rás. 

Um það var samið við myndun ríkisstjórnarinnar í lok nóvember 2021 að Guðrún Hafsteinsdóttir yrði ráðherra fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins 18 mánuðum síðar og Jón Gunnarsson léti af ráðherraembætti.

Þingflokkur Sjálfstæðismanna kom saman sunnudaginn 18. júní og staðfesti tillögu Bjarna Benediktssonar flokksformanns um að staðið yrði við þetta samkomulag og í dag tekur Guðrún við embætti dómsmálaráðherra af Jóni eins og formlega var frá gengið á fundi ríkisráðsins á Bessastöðum.

Þess verður minnst á næsta ári að 120 ár verða liðin frá því að stjórnarráðið kom til sögunnar þegar Hannes Hafstein varð ráðherra Íslands og fór sá ráðherra með

með dóms- og kirkjumál þar til sér ráðherra var skipaður 1917, Jón Magnússon.

Ráðuneytið hét dóms- og kirkjumálaráðuneytið fram til 2009, þá var nafninu breytt í dómsmála- og mannréttindaráðuneytið (2009–2011). Ráðuneytið hélt áfram að sjá um kirkjumál. Auk þess tók ráðuneytið þá við forræði yfir sveitastjórnarkosningum, fasteignamati, neytendamálum, og málum er vörðuðu mansal. Árið 2011 sameinaðist ráðuneytið samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og varð þá til innanríkisráðuneytið. Innanríkisráðuneytið var svo klofið árið 2017 í dómsmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Nú heitir ráðuneytið dómsmálaráðuneyti þar sem kirkjumálin eru ekki lengur á ábyrgð stjórnarráðsins með sama hætti og áður var.

Hringlið með heiti ráðuneyta og uppbrot þeirra án knýjandi nauðsynjar á ekki eftir að auðvelda þeim ritun sögu stjórnarráðsins sem taka það verkefni að sér. Sagan var síðast gefin út árið 2004 í tilefni af því að 100 ár voru liðin frá því að Hannes Hafstein varð ráðherra Íslands.

1422241Guðrún Hafsteinsdóttir, Bjarni Benediktsson og Jón Gunnarsson á leið á þingflokksfund 18. júní 2023 (samsett mynd: mbl.is).

Nú gerist það í fyrsta sinn í sögu ríkisstjórna að meirihluti ráðherra Sjálfstæðisflokksins eru konur. Fer vel á því að flokkurinn stígi þetta skref 19. júní á kvenréttindadeginum þegar þess er minnst að þennan dag árið 1915 fengu konur á Íslandi, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þar var Ingibjörg H. Bjarnason meðal annarra í fararbroddi.

Ingibjörg varð fyrsta konan til að taka sæti á alþingi landskjörin, 1922-30. Náði hún kjöri á sérstökum kvennalista en gekk síðar til liðs við Íhaldsflokkinn sem varð Sjálfstæðisflokkurinn árið 1929.

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnhildur Helgadóttir, varð fyrst kvenna þingforseti þegar hún var kjörin forseti neðri deildar 1961. Hún var forseti 1961–1962 og 1974–1978.

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Auður Auðuns, varð fyrst kvenna til að taka sæti í ríkisstjórn Íslands, þegar hún varð dóms- og kirkjumálaráðherra 10. október 1970. Áður hafði Auður orðið fyrst kvenna til að ljúka lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands og verða borgarstjóri í Reykjavík.

Hlutur Sjálfstæðisflokksins er glæsilegur þegar litið er til þess trúnaðar sem flokksmenn, kjósendur og þingflokkur hafa sýnt konum í áranna rás. Rík hefð er í flokknum fyrir öflugu stjórnmálastarfi kvenna og nýtur það mikillar virðingar á vettvangi hans eins og sést enn á ný á ríkisráðsfundinum í dag.