4.7.2024 9:32

Guðfaðir útlendingalaganna

Líklega hefur Bergþór hætt við að rekja þessa tímalínu og segja frá henni þegar hann var kominn aftur á sumarið 2015 og las ræður Sigmundar Davíðs hér og erlendis. 

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, getur ekki skrifað um stjórnmál líðandi stundar án þess að hreyta ónotum í Sjálfstæðisflokkinn eða sjálfstæðismenn. Hann sver sig þannig í lið með Reyni Traustasyni á Mannlífi og tvímenningunum Sigmundi Erni Rúnarssyni og Ólafi Arnarsyni sem fljóta enn með braki úr fjölmiðlaveldi Helga Magnússonar á Eyjunni og DV. Neyðaróp Ólafs er síendurtekið, hvort heldur undir nafni eða nafnlaust og magnast aðeins fýlan.

Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Bergþór meðal annars þegar hann rekur raunir sínar við leit að árásarefnum á ráðherra Sjálfstæðisflokksins:

„Því næst langaði mig, enn og aftur, að rekja tímalínu við setningu gildandi útlendingalaga en dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins gerði tilraun til þess að herma þau lög upp á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í hlaðvarpi um daginn. Ekkert er eins fjarri lagi eins og hefur þegar komið fram.“

Líklega hefur Bergþór hætt við að rekja þessa tímalínu og segja frá henni þegar hann var kominn aftur á sumarið 2015 þegar flóttafólk og hælisleitendur frá Sýrlandi og nágrenni þess streymdu til Evrópu.

SDGogUNCHR

António Guterres, núv. aðalritari SÞ, var forstjóri flóttamannastofnunar SÞ þegar Sigmundur Davíð sótti fund SÞ um farandfólk 1. október 2015 (mynd: forsætisráðuneytið).

Séu ræður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á þessum tíma lesnar eða farið yfir fréttatilkynningar forsætisráðuneytisins frá haustinu 2015 sést að ráðherrann lét sig mál fólksins frá Sýrlandi mjög miklu varða. Hann kom á fót sérstakri ráðherranefnd og hvatti til samstöðu allra flokka um aðgerðir til að búa sem best í haginn hér fyrir flóttamenn og hælisleitendur.

Sigmundur Davíð lét ekki við það sitja að boða stefnu sína um þessi mál hér á landi heldur sótti ráðstefnu um vandann á vegum Sameinuðu þjóðanna. Í tilkynningu um för hans þangað er þess getið að hann hafi átt fund með fulltrúum UNRWA, það er flóttamannahjálpar SÞ vegna Palestínumanna.

Þá fór Sigmundur Davíð á sérstaka leiðtogaráðstefnu um vandann vegna farandfólks í La Valetta á Möltu. Beindist athygli leiðtoganna einkum að þeim sem lögðu leið sína yfir Miðjarðarhaf til ólöglegrar komu til Evrópu. Þar var Sigmundur Davíð með opinn faðminn eins og annars staðar þar sem hann tók til máls um þennan mikla og vaxandi vanda. Má ætla að hann hafi hrifist af Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem opnaði þýsku landamærin með íslenska hugarfarinu um að þetta myndi reddast. Svo fór þó alls ekki.

Í fréttum frá þessum tíma er sagt frá því að þingmennirnir Óttarr Proppé, Bjartri framtíð, og Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki, hafi farið til Tyrklands til að kynna sér aðstæður flóttafólks. Höfðu lýsingar þeirra mikil áhrif á aðra þingmenn. Óttarr var formaður í nefnd allra flokka til að semja ný útlendingalög.

Það er mögnuð tilraun til sögufölsunar hjá Bergþóri Ólasyni þegar hann segir nú, um níu árum eftir að þetta allt gerðist, að ekkert sé „eins fjarri lagi“ og það að herma útlendingalögin frá 2016 upp á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þótt Sigmundur Davíð hafi hrökklast úr embætti forsætisráðherra áður en útlendingalögin voru samþykkt má með réttu kalla hann guðföður þeirra. Fortíðinni verður ekki breytt.