12.4.2017 10:41

Guð forði almannafé frá Gunnari Smára biður Markaðurinn

Er í raun óskiljanlegt, vilji álitsgjafar vera marktækir, að þeir setji ekki sérstakan fyrirvara á allt sem Gunnar Smári tekur sér fyrir hendur.

Hér var í gær fjallað um flokksáform Gunnars Smára Egilssonar. Það er gert í fleiri fjölmiðlum í dag. Í Staksteinum Morgunblaðsins kemst höfundurinn að þessari niðurstöðu:

„Múslímskur sósíalistaflokkur með norskt fylki sem útópíu og málgagn skrifað af fólki sem fær ekki laun er stórbrotin sýn.“

Í orðum sínum dregur höfundurinn saman í eina setningu afstöðu Gunnars Smára undanfarin misseri. Hann gekk í félagsskap múslima, stofnaði flokk eða hreyfingu til að gera Ísland að fylki í Noregi og vinnur nú að stofnun flokks sósíalista án þess að láta ná í sig vegna örlaga Fréttatímans.

Frá þeim örlögum er sagt í Markaðnum fylgiblaði Fréttablaðsins á miðvikudögum. Þar birtist þessi frétt:

„Morgundagur ehf., útgáfufélag Fréttatímans, tapaði 151 milljón króna á rekstri fjölmiðilsins í fyrra. Tapið meira en tífaldaðist miðað við árið 2015 þegar afkoman var neikvæð um 13,5 milljónir króna

Þetta kemur fram í rekstrarreikningi Morgundags fyrir 2016 sem Markaðurinn hefur undir höndum. Samkvæmt honum jukust auglýsingatekjur fjölmiðilsins úr 383 milljónum árið 2015 í 504 milljónir í fyrra. Útgáfukostnaður Morgundags nam 369 milljónum samanborið við 231 milljón árið á undan. Laun og annar starfsmannakostnaður jókst um 99,7 milljónir milli ára og var í árslok 2016 um 223 milljónir. Rekstrartap fjölmiðilsins fyrir fjármunatekjur og gjöld nam 137,6 milljónum.

Útgáfudögum blaðsins var fjölgað úr einum í tvo og síðan þrjá í kjölfar aðkomu nýrra eigenda að útgáfunni í nóvember 2015. Í þeim hópi voru meðal annars þeir Gunnar Smári Egilsson, fráfarandi ritstjóri Fréttatímans, Valdimar Birgisson, framkvæmdastjóri blaðsins, og Sigurður Gísli Pálmason, fjárfestir og einn eigenda IKEA á Íslandi. Þremenningarnir mynda núverandi eigendahóp fjölmiðilsins en líkt og komið hefur fram er óljóst um framtíð hans og hvort fleiri tölublöð muni líta dagsins ljós. Um tíu starfsmenn hafa ekki enn fengið greidd laun fyrir marsmánuð og hefur Gunnar Smári, stærsti eigandi blaðsins, sagt skilið við fjölmiðilinn og undirbýr hann nú stofnun Sósíalistaflokks Íslands.

Gunnar og Sigurður Gísli sögðu sig í gær úr stjórn Morgundags og er nú enginn skráður stjórnarmaður hjá félaginu.“

Á baksíðu Markaðarins birtist skoðun ritstjórnar. Þar segir meðal annars:

„Ritstjóri blaðsins [Fréttatímans] og aðaleigandi, Gunnar Smári Egilsson, dró á meðan sængina upp fyrir haus og lét ekki í sér heyra meðan starfsfólk tróð marvaðann fyrir framtíð blaðsins. Og það án þess að þiggja laun fyrir. [...]

[Þ]etta [er] ekki í fyrsta sinn sem Gunnar Smári gengur frá fjölmiðlarekstri með öngulinn í rassinum. Hann átti ekki farsæla daga sem forstjóri fjölmiðlarisans Dagsbrúnar á sínum tíma þar sem sinnuleysi um annarra manna fé var sem rauður þráður. Hver man annars ekki eftir hinni íslensku CNN - NFS sem flytja átti fréttir úr örsamfélaginu allan liðlangan daginn?

Þekktasta dæmið var þó sennilega fríblaðið Nyhedsavisen sem sigra átti Danmörku á mettíma. Þar sátu fjárfestar enn á ný eftir með sárt ennið.

Margir hafa kannski dregið þá ályktun nú eftir Fréttatímafarsann að Gunnari Smára ætti sennilega ekki að treysta fyrir annarra manna fé. Almenningur í landinu virtist að minnsta kosti á þeirri skoðun miðað við hrapallega misheppnaða landssöfnun sem Gunnar Smári efndi til á lokametrunum svo bjarga mætti miðlinum.“

Segir ónafngreindi höfundur þessa texta í Markaðnum (Jón Ásgeir Jóhannesson fyrrv. viðskiptafélagi Gunnars Smára?) að Gunnar Smári vinni nú að stofnun Sósíalistaflokks með það að lokamarkmiði að verða ráðherra. Biður höfundurinn Guð að hjálpa okkur öllum takist Gunnari Snorra þessi áform. Ekkert í langri rekstrarsögu Gunnars Smára bendi til þess að fólkið í landinu eigi að treysta honum fyrir almannafé. Um það geti fjölmargir einkafjárfestar vottað. Hugleiðingunni lýkur á þessum orðum:

„Atburðarás liðinnar viku gefur heldur ekki fögur fyrirheit um að launafólk geti treyst sósíalistanum Gunnari Smára fyrir sínum hagsmunum.

Auðvelt er fyrir klárt fjölmiðlafólk að básúna skoðanir sínar þannig að allir heyri. Í þetta skiptið er hljómurinn bara heldur holur.“

Í Sviðsljósi við hlið leiðara Morgunblaðsins í dag er fjallað um fyrirhugaðan Sósíalistaflokk Íslands eins og staðið sé að honum af marktækum manni. Þar skrifar Vilhjálmur A. Kjartansson blaðamaður grein undir fyrirsögninni: Draugur fortíðar eða nýtt afl til framtíðar?

Þar segir í upphafi:

„Ritstjórinn og útgefandinn fyrrverandi Gunnar Smári Egilsson stefnir að stofnun Sósíalistaflokks Íslands 1. maí nk., en helsta stefnumál flokksins er að færa vald til fólksins. Þá segir í stefnuyfirlýsingu flokksins að helstu andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands séu auðvaldið og þeir sem gangi erinda þess.“

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, talar um væntanlegan flokk og segir hann „augljóslega töluvert til vinstri og minnir á nýju vinstriflokkana bæði á Spáni og í Grikklandi, þ.e. harða popúlíska vinstriflokka“.

Þá segir í grein Vilhjálms A. Kjartanssonar:

„Almannatengillinn Andrés Jónsson segir nýjan flokk geta siglt á ákveðnu afturhvarfi til fortíðar, þ.e. rómantík um gamlan og betri tíma.

„Yngra fólk hallar frekar til vinstri í dag og gæti flokkurinn leitað í það fylgi. Eldra fólk er frekar með sterkari skoðanir með og á móti vörumerki sósíalisma, það þekkir það betur,“ segir Andrés. Margir líti málamiðlanir hornauga í dag og horfi til flokka og stjórnmálamanna sem lofa einföldum lausnum. Sú nálgun gæti skilað þessum nýja flokki fylgi, að mati hans.

„Gunnar Smári er sannfærandi og hann hefur hæfileika til að ná til fólks. Þannig tók hann þátt og talaði fyrir útrásinni fyrir hrun en líka gegn henni eftir hrun,“ segir Andrés.“

Hér skal endurtekið það sem sagt var í gær að Gunnar Smári hefur alltaf átt fylgismenn meðal álitsgjafa í landinu sem forðast að ræða um hann á sama hátt og gert er af ónafngreinda höfundinum í Markaðnum. Er í raun óskiljanlegt, vilji álitsgjafar vera marktækir, að þeir setji ekki sérstakan fyrirvara á allt sem Gunnar Smári tekur sér fyrir hendur.

Þegar ég les um Gunnar Smára dettur mér alltaf í hug kvikmyndin Elmer Gantry frá 1960 sem lýst er á þennan hátt: „Elmer Gantry is a 1960 drama film about a con man and a female evangelist selling religion to small town America.“ Burt Lancaster lék Elmer Gantry af mikilli snilld og hlaut Óskars-verðlaunin.