27.7.2024 10:55

Grunnskóli án námsmats

Heimasmíðað tól til námsmats er ekki til þess fallið að efla samkeppnishæfni þjóðarinnar eða opna Íslendingum ný tækifæri og leiðir. 

Umræðurnar um stöðu grunnskólans vinda upp á sig eftir því sem nánar er skoðað. Þar er Morgunblaðið í broddi fylkingar. Nú í dag, 27. júlí, birtir blaðið viðtal við Arnór Guðmundsson, fyrrv. forstjóra Menntamálastofnunar til sjö ára, sem bregður öðru ljósi á stöðuna en t.d. Lilja D. Alfreðsdóttir sem var menntamálaráðherra (2017-2021) og sagði í Morgunblaðinu 25. júlí að hún hefði ekki átt annan kost árið 2021 en að leggja samræmdu prófin niður vegna þess að Menntamálastofnunin hefði ekki ráðið við að leggja samræmd könnunarpróf fyrir með stafrænum hætti.

Það liggur fyrir að eftir að Lilja varð menntamálaráðherra skipaði hún starfshóp sem skilaði skýrslu árið 2020 þar sem lagðar voru til verulegar breytingar, meðal annars um að samræmd próf í núverandi mynd yrðu ekki þróuð frekar og að notkun þeirra yrði hætt. Í stað þeirra yrði til heildstætt safn matstækja í mörgum námsgreinum sem í grundvallaratriðum hefðu sama markmið og samræmd könnunarpróf. Þetta nýja tæki er kallað matsferill.

Að hanna það hefur dregist von úr viti. Arnór segir á hinn bóginn í samtali við Morgunblaðið að hefðu yfirvöld áhuga á gæðamálum séu í öllum nágrannalöndum til próf sem laga mætti að aðstæðum hér. Það ráðist af áhuga á gæðum skóla hvort menn nýti sér slík alþjóðleg próf eða ekki og hvort menn vilji að náms- og gæðamat standist alþjóðlegar kröfur.

Screenshot-2024-07-27-at-10.54.20

Halldór Friðriksson, kerfisfræðingur á eftirlaunum, ræðir í grein í Morgunblaðinu í dag um nauðsyn upplýsingamiðlunar um skólastarf, til dæmis þegar foreldrar taka ákvarðanir um búsetu innan sveitarfélags eða við val á nýju sveitarfélagi. Hann segir:

„Lélegur skóli er ekki til þess fallinn að styrkja hverfið og breytir því jafnvel smám saman á margvíslegan hátt, t.d. lækkar húsnæðisverð og hefur þetta jafnvel neikvæð áhrif á ásýnd hverfisins í heild.“

Halldór gagnrýnir viðkvæmni gagnvart upplýsingamiðlun um skólastarf og bendir á að annars staðar í þjóðfélaginu þyki sjálfsagt að bera saman stofnanir og fyrirtæki og jafnvel að gefa opinberar eða hálfopinberar einkunnir. Allir þekki þetta og þyki sjálfsagt, t.d. Michelin-stjörnur og umsagnir hjá Trip Advisor sem margir nýti sér.

Ábendingar í þessa átt eru eitur í beinum formanns Kennarasambands Íslands ef marka má fordæmingu hans á að talað sé um „keppni“ milli skóla. Hvort sem formanninum líkar betur eða verr er hún fyrir hendi í huga foreldra og nemenda. Þar reisa menn skoðanir sínar á orðrómi og tískubylgjum hafi þeir ekki aðgang að haldbærum raungögnum.

Heimasmíðað tól til námsmats er ekki til þess fallið að efla samkeppnishæfni þjóðarinnar eða opna Íslendingum ný tækifæri og leiðir. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr eru samræmd tæki eins og PISA notuð til mats á milli þjóða.

Í samtalinu við Morgunblaðið lýsir Arnór Guðmundsson stöðunni hér vel þegar hann segir að við núverandi aðstæður sé sérstakt að það sé ekkert kerfisbundið náms- og gæðamat í gangi í grunnskólum, engin samræmd próf, eini mælikvarðinn sé PISA. Kannski verður honum bara hafnað líka?