6.9.2018 10:46

GRU-útsendarar og eiturefni á Englandi

Breskir lögreglumenn og sérfræðingar þeirra sem búa yfir snilligáfu til að greina andlit manna á upptökum eftirlitsmyndavéla hafa kortlagt ferðir GRU-útsendaranna.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, sagði GRU, leyniþjónustu rússneska hersins, stríð á hendur í ræðu sem hún flutti í neðri málstofu breska þingsins í gær (5. september) þegar hún skýrði frá niðurstöðu lögreglu og saksóknara um að tveir útsendarar GRU hefðu komið til Bretlands 2. mars og farið þaðan aftur að kvöldi 4. mars eftir að hafa eitrað fyrir Sergei Skripal og dóttur hans Júlíu í Salisbury í suðvesturhluta Englands.

Breskir lögreglumenn og sérfræðingar þeirra sem búa yfir snilligáfu til að greina andlit manna á upptökum eftirlitsmyndavéla hafa kortlagt ferðir GRU-útsendaranna frá því að þeir komu til Gatwick-flugvallar og fóru frá Heathrow-flugvelli. Þetta gátu þeir gert með því að skoða 11.000 klukkustunda langar upptökur úr eftirlitsmyndavélum. Net slíkra véla er þéttriðnara í Bretlandi en flestum ef ekki öllum löndum, ein myndavél á hverja 11 íbúa landsins.

_103302029_cctvpic2metpoliceÞetta er ein af myndunum sem breska lögreglan birti.

Það er mat bresku ríkisstjórnarinnar að illvirkið í Salisbury sé framkvæmt að fyrirmælum frá æðri stöðum í Rússlandi. Það sé liður í tilraunum Rússa til að grafa undir öryggi Breta og bandamanna þeirra um heim allan.

Rússar hafi kynnt undir átökum í Donbass í austurhluta Úkraínu, innlimað Krímskaga, hvað eftir annað rofið lofthelgi nokkurra Evrópuríkja og staðið fyrir varanlegum njósnum í netheimum og hlutast til um kosningar. Þeir hafi staðið að tilraun til valdaráns í Svartfjallalandi. Þá hafi flugskeyti af rússneskum uppruna og frá svæði undir stjórn aðskilnaðarsinna í skjóli Rússa grandað farþegaflugvélinni MH17 yfir Úkraínu.

Sama dag og frétt birtist um þetta í Morgunblaðinu draga þrír þingmenn í efa að beita eigi Rússa þvingunaraðgerðum. Horft er fram hjá því að það var Valdimír Pútín Rússlandsforseti sem setti innflutningsbann á íslenskan fisk, nú selja íslensk tæknifyrirtæki búnað til fiskvinnslu til Rússlands.

Vesturlönd hafa mótað allt aðra stefnu en Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gagnvart rússneskum stjórnvöldum. Hún segir í Morgunblaðinu: „ Við verðum að vera raunsæ í þessu máli, við getum ekki þvingað Rússa til að skila einu né neinu. Þeir hafa hingað til bara gert það sem þeim sýnist.“

Þykir Ingu Sæland óþarfi að bresk stjórnvöld upplýsi eiturefnaárásina í Salisbury? Menn verði bara að sætta sig við að Rússar geri það sem þeim sýnist? Það er fagnaðarefni að slík uppgjafarstefna ræður ekki afstöðu meirihluta alþingismanna.