11.11.2023 10:41

Grindavík mannauð

Í fréttum á ruv.is að morgni laugardagsins 11. nóvember sagði að rýmingu Grindavíkur hefði verið lokið um klukkan hálf tvö aðfaranótt laugardagsins.

Almannavarnir birtu á síðu sinni klukkan 23.48 föstudaginn 10. nóvember tilkynningu um að á 11. tímanum þá um kvöldið hefði Veðurstofa Íslands upplýst „að ekki væri hægt að útiloka að kvikugangurinn sem er að myndast [á Reykjanesi] gæti náð til Grindavíkur“.

Vegna þessa ákvað lögreglustjórinn á Suðurnesjum, í samráði við almannavarnir, að rýma Grindavíkurbæ og jafnframt lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi í nafni almannavarna.

Neyðarstig er hæsta vástig almannavarna og því er lýst þannig að það „einkennist af atburði sem valdið hefur slysum á fólki og/eða tjóni á mannvirkjum. Verkefni á þessu stigi einkennast af tafarlausum aðgerðum til lífsbjargandi aðstoðar og viðleitni til að afstýra fleiri slysum og varna frekara tjóni“.

Í tilkynningu almannavarna að kvöldi 10. nóvember 2023 sagði að nýjustu gögn veðurstofunnar sýndu talsverða færslu og stóran kvikugang sem væri að myndast og gæti opnast, og legið þá frá suð vestri til norð austurs.Myndin sýnir jarðskjálftasvæði.

Sagt var að ákvörðunin væri tekin með öryggi íbúa í Grindavík í huga. Mikilvægt væri að allir sýndu stillingu, „því við höfum ágætan tíma til að bregðast við,“ sagði einnig.

Í fréttum á ruv.is að morgni laugardagsins 11. nóvember sagði að rýmingu Grindavíkur hefði verið lokið um klukkan hálf tvö aðfaranótt laugardagsins. Þá höfðu íbúar yfirgefið heimili sín en viðbragðsaðilar stóðu enn vaktina.

Eftir fund almannavarna með sérfræðingum á Veðurstofu Íslands á milli þrjú og fjögur um nóttina var ákveðið að kalla alla viðbragðsaðila frá Grindavík. Bærinn er nú mannlaus fyrir utan lögreglumenn. 1. janúar 2023 voru 3.669 íbúar skráðir í Grindavík.

231111_1035Græn stjarna sýnir að jarðskjálfti er yfir 3. Kort frá Veðurstofu Íslands, kl. 10.35 11. nóvember 2023.

Dómsmálaráðherra Guðrún Hafsteinsdóttir ákvað síðdegis á föstudag að hafist skyldi handa við gerð varnargarða til verndar mannvirkjum á nágrenni við hugsanlegt gossvæði. Þá var talið líklegt að orkumannvirki við Svartsengi og Bláa lónið kynnu að vera í hættu. Miðað við framvindu mála síðan er enn veruleg óvissa um hvort, hvenær og hvar gos verður. Efnistaka vegna fyrirhugaðs varnargarðs er sögð hafin.

Það kemur á óvart að sagðar séu fréttir af því að flytja þurfi sérstakt lagafrumvarp um varnargarða og ekki séu taldar nægar heimildir í almannavarnalögum. Hvað veldur?

Morgunblaðinu þótti ástæða til að leita álits Bjargar Evu Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, á gerð varnargarða. Samtökin eru kunn fyrir að leggjast gegn öllu jarðraski. Þau hafa fjölmiðlavægi langt umfram félagafjölda.

Björg Eva upplýsir í blaðinu 11. nóvember að Landvernd ætli að hafa skoðun á varnargarði vegna hugsanlegs eldgoss eftir helgi! Hún þurfi að kynna sér málið, en ummæli Víðis Reynissonar hjá almannavörnum um varnargarða séu „mjög sérkennileg“.