2.9.2023 11:03

Grenitré hér og þar

Hugsjónir búa að baki óheilindunum. Annars vegar ósk um aukinn „félagslegan fjölbreytileika“ í Breiðholti og hins vegar óvild í garð Reykjavíkurflugvallar. 

Suðurfell heitir 4,3 hektara svæði í Efra-Breiðholti þar sem meirihluti borgarstjórnar vill að rísi lágreist byggð með 50 til 75 íbúðum. Fyrr í sumar var óskað eftir ábendingum/umsögnum vegna þessara áforma á skipulagsgátt. Skyldu viðbrögð berast eigi síðar en 31. ágúst 2023. Alls bárust 98 ábendingar/umsagnir og eru þær að yfirgnæfandi meirihluta neikvæðar og flestar frá íbúum nálægt svæðinu sem um er að ræða.

Miðað við fyrri dæmi um hvernig meirihlutinn skellir skollaeyrum við sjónarmiðum almennings er ekki ástæða til bjartsýni fyrir þá sem hafa uppi andmæli. Sumir lifa þó líklega í þeirri von að ítök framsóknar í meirihlutanum hafi í för með sér breytingar að því er þennan þátt varðar.

Eins og eðlilegt er setja ýmsir sem nýta sér samráðsgáttina ákvarðanir um að eyða þessu græna svæði í Breiðholtinu í samhengi við viðbrögð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra við erindi Isavia um að grisja skóg í Öskjuhlíðinni til að tryggja flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli.

Dagur B. sagði að grisjun á 1 hektara lands í Öskjuhlíðinni kynni hugsanlega að kalla á nýtt umhverfismat, fara þyrfti varlega í skógarhögg í hlíðinni. Borgarstjóri sagði 18. ágúst 2023 á visir.is: „En það er ljóst að við höfum á undanförnum árum verið að auka vernd svokallaðra borgargarða eins og Öskjuhlíðin er og Elliðaárdalurinn.“ Undir hans stjórn er því hins vegar hafnað að fyrirhugaðar framkvæmdir í Suðurfelli fari í umhverfismat.

IMG_7852Þörfin fyrir að grisja Öskjuhlíðina er knýjandi – ekki aðeins vegna flugöryggis.

„Það er tvískinnungur hjá borgaryfirvöldum að krefjast umhverfismats þegar fjarlægja á tré í Öskjuhlíðinni til að vernda flugumferð, en svo á að eyðileggja stóran hluta af grónu og mikið notuðu útivistarsvæði efst í Elliðaárdalnum, án þess að umhverfismat eigi að fara fram,“ segir í einni umsögninni. Og í annarri:

„Í Suðurfelli á að höggva tré og leggja 4,3 hektara af ósnertu grænu og skógi vöxnu útivistarsvæði við Elliðaárdalinn undir byggingar, þar með talinn ½ hektara undir bílastæði. Skiptir 1 hektari í miðborginni kannski meira máli en 4,3 hektarar í Breiðholti og Árbæ þegar kemur að kolefnisjöfnun og lífi og lungum íbúa?“

Hugsjónir búa að baki óheilindunum. Annars vegar ósk um aukinn „félagslegan fjölbreytileika“ í Breiðholti og hins vegar óvild í garð Reykjavíkurflugvallar. Annars vegar birtist þetta í eyðingu grenitrjáa og annars gróðurs í Suðurfelli og hins vegar uppgerðri umhyggju fyrir grenitrjám í Öskjuhlíð.

Þjóðfélagsrýnirinn Óttar Guðmundsson segir á dv.is laugardaginn 2. septembe r:

„Skógurinn í Öskjuhlíð hefur fengið að vaxa óáreittur og ógrisjaður svo að hann er orðinn að villigróðri sem nýtist engum nema kanínum í æxlunarleik. Fólk getur ekki stundað neina útivist í þessum skógi vegna þess hversu óhaminn og þéttur hann er. Hann keyrir í kaf allar sögulegar minjar í Öskjuhlíð.“

Þetta er því miður rétt hjá Óttari. Nú er unnið að því að rífa upp tré með rótum í efri hluta Öskjuhlíðar á vegum Reykjavíkurborgar til að fara megi hring í kringum Perluna. Á svæðinu sem ógnar flugöryggi eru litlar sem engar mannaferðir vegna þéttleika skógarins. Grisjun þar er bæði sjálfsögð og eðlileg vilji menn opna Öskjuhlíðina meira fyrir almenningi. Að heimta umhverfismat vegna grisjunar þar en ekki vegna upprætingar skóga er hræsni.