28.12.2023 9:33

Greining á lýðskrumi

Til að greina lýðskrum í opinberum umræðum má beita ýmsum aðferðum. Ein er að skoða fullyrðingar sem slegið er fram.

Til að greina lýðskrum í opinberum umræðum má beita ýmsum aðferðum. Ein er að skoða fullyrðingar sem slegið er fram til að afla fylgis meðal þeirra sem leggja sig ekki sérstaklega fram um að kynna sér efni málsins. Takist stjórnmálamönnum að beita slíkum málflutningi til að tyggja sér völd verða oft skil milli orða og athafna setjist þeir í ábyrgðarstöður.

Víða innan Evrópusambandsins er Brusselvaldið skotspónn þeirra sem segja að allan vanda megi leysa með því að losna undan því valdi. Það hefur hins vegar margoft komið í ljós að þeir sem þannig tala til að afla sér fylgis finnst í valdastöðu ástæðulaust að stofna til átaka með gagnrýni á Evrópusambandið.

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, er einn þeirra sem talar tungum tveim þegar ESB er annars vegar. Fyrir nýlegan leiðtogaráðsfund ESB sagðist hann ekki sætta sig við að með hraði yrði fjallað um ESB-aðild Úkraínu. Gaf hann til kynna að hann myndi bregða fæti fyrir afgreiðslu málsins. Þegar aðildarmálið var tekið fyrir í leiðtogaráðinu ákvað Orbán að hverfa af fundi. Hann kom svo aftur og stöðvaði 50 milljarða evru fyrirgreiðslu ESB til Úkraínu. Verður lagt að honum að skipta um skoðun á aukafundi leiðtogaráðsins 1. febrúar. Orbán veit að honum verður ekki liðið að beita valdi sínu á þennan hátt. Fyrir honum vakir ekki annað en að fá sem mest fyrir sinn snúð og geta nýtt það til heimabrúks.

IMG_9038_1703755992594

Hér slá ýmsir um sig í útlendingamálum með stóryrðum vegna aðildar Íslands að Schengen-samstarfinu. Það er mikill misskilningur að líta á Schengen-aðildina sem undirrót vandans sem hér hefur skapast í útlendingamálum. Þar er alfarið um heimatilbúið vandamál að ræða. Íslenskum stjórnvöldum er heimilt að setja miklu strangari skilyrði til að sporna við straumi fólks í heimildarleysi til landsins en gert hefur verið.

Þeir sem telja að málið leystist með því að fara úr Schengen eru lýðskrumarar sem skipta um skoðun um leið og þeir axla ábyrgð í landstjórninni.

Svo eru það hinir sem segja að orkuskortinn hér á landi megi rekja til orkustefnu á sameiginlega EES-markaðnum. Þetta gerir Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, í Morgunblaðinu í dag (28. des). Það yrði fróðlegt að sjá til hvaða ráða þingmaðurinn gripi yrði honum treyst fyrir pólitískri ábyrgð á orkumálum þjóðarinnar. Ef hann héldi að dygði að segja skilið við 3. orkupakkann og tryði þannig eigin boðskap ykist orkuvandinn og hann sæti ekki lengi í embætti.