17.5.2019 11:45

Greining á lögfræðidrama í Skírni

Fyrir alla almenna borgara landsins er áhyggjuefni að dómarar skuli leyfa sér að ganga til verka eins og þarna er lýst.

Um þessar mundir fá áskrifendur tímaritanna Sögu, rits Sögufélags, og Skírnis, rits Hins íslenska bókmenntafélags, þau inn um bréfalúguna hjá sér.

Líklega hefja flestir lestur Sögu á því að rýna í ritdómana sem þar birtast. Fræðigreinar setja að sjálfsögðu mestan svip á ritið og þar má til dæmis nú lesa greinar fjögurra fræðimanna um samskipti Dana og Íslendinga. Ritstjórar Sögu eru Kristín Svava Tómasdóttir og Vilhelm Vilhelmsson.

Umfjöllun um bókmenntir setur sterkan svip á Skírni undir ritstjórn Páls Valssonar. Þar er þó einnig að finna greinina Ólíku saman að jafna – Tilraun til röklegrar greiningar á lögfræðidrama eftir Gunnar Harðarson prófessor við sagnfæði og heimspekideild Háskóla Íslands.

LandsrLandsréttur er til húsa í Kópavogi. (Mynd mbl.is)

Í greininni brýtur Gunnar til mergjar dómana frá desember 2017 þar sem hæstiréttur dæmdi tveimur umsækjendum um embætti landsréttardómara miskabætur vegna þess að dómsmálaráðherra dró þá út af lista dómnefndar um dómaraefni. Ráðherrann breytti lista dómnefndar að kröfu alþingismanna. Þá ber Gunnar rökstuðning hæstaréttar 2017 saman við rökstuðning fyrir dómi hæstaréttar frá 2011 vegna skipunar héraðsdómara.

Landsréttarmálið svonefnda hefur verið lögfræðilegt og stjórnmálalegt álitamál frá árinu 2017. Flutt var vantraust á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra vegna þess. Vantrauststillagan var felld á alþingi. Undirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Strassborg reisti niðurstöðu sína á dómum hæstaréttar frá desember 2017 þegar hún 12. mars 2019 felldi þann dóm að með skipan tiltekins dómara Landsréttar hefði verið brotinn réttur einstaklings til að úr ákæru á hendur honum væri leyst af dómi sem komið hefði verið á fót með lögum, samanber 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Sigríður Á. Andersen ákvað að stíga til hliðar 14. mars 2019. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að skjóta málinu til yfirdeildar MDE.

Hér verður ekki vitnað í grein Gunnars Harðarsonar. Textinn er svo hnitmiðaður að ekki gefur rétta mynd af byggingunni að taka einn stein úr henni. Fyrir alla almenna borgara landsins er áhyggjuefni að dómarar skuli leyfa sér að ganga til verka eins og þarna er lýst.

Fyrir lögfræðing sem gegnt hefur embætti dómsmálaráðherra og kynnst í návígi hörkunni sem sumir í hópi dómara beita til að sölsa undir dómara valdi til að velja sér samstarfs- eða eftirmenn kemur meira að segja á óvart að gengið sé jafnlangt í því pólitíska stríði og lýst er í grein Gunnars Harðarsonar.

Eitt er að fámenn, valdamikil klíka dómara, í dómnefndum og dómstólum, skuli beita sér með ofríki á heimavellli þar sem hún hefur tögl og hagldir. Annað að í Strassborg láti þeir sem eiga að gæta mannréttinda í Evrópu sig hafa það að ganga erinda þessarar klíku.