14.2.2025 9:55

Grænland: Ísland og Bandaríkin

Íslendingar eigi að grípa það tækifæri sem hefur myndast undanfarið og var til dæmis rætt í bandarísku þingnefndinni 12. febrúar.

Eldur Ólafsson greinarhöfundur í Morgunblaðinu í dag (14. febrúar) er kynntur með þessum orðum: „[S]tofnandi Amaroq Minerals, stærsta einkafjárfestis á Grænlandi, með yfir 10 ára reynslu í viðskiptum við grænlenska ríkið. Félagið er einn stærsti réttindahafi á hrávöruleyfum í landinu.“

Amaroq Minerals er skráð á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Gengi félagsins stóð í 196 kr. á hlut miðvikudaginn 12. febrúar og var um 7,4% hærra en í upphafi árs.

Í upphafi greinar sinnar segir Eldur:

„Bandaríkin standa frammi fyrir sinni stærstu öryggisógn frá Rússlandi og Kína. Til að tryggja bæði eigin hagsmuni og hagsmuni hins frjálsa heims þurfa Bandaríkin og NATO að efla varnarinnviði á Íslandi og Grænlandi. Eins og staðan er í dag er fjárfesting í varnarinnviðum á þessum svæðum ófullnægjandi, sem og eftirlit.“

Screenshot-2025-02-14-at-09.53.28

Þetta mat höfundar fellur að því sem fram kom í Washington DC miðvikudaginn 12. febrúar í opnum umræðum í nefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings um viðskipti, vísindi og samgöngur þar sem þingmenn ræddu í rúma tvo tíma í beinni útsendingu við fjóra sérfræðinga um landfræðilegt og hernaðarlegt gildi Grænlands og norðurslóða.

Formaður nefndarinnar, Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Texas, sagði í upphafi fundarins að Bandaríkin hefðu gífurlegan efnahagslegan ávinning af því að fá forræði Grænlands. Náttúruauðlindir landsins eins og sjaldgæf jarðefni myndu styrkja bandarískar aðfangakeðjur og iðnað. Hernaðarleg hnattstaða landsins á norðurslóðum myndi skapa stóraukið forskot við eftirlit með vaxandi rússnesku og kínversku hernaðarbrölti á svæðinu. Hann sagðist þeirrar skoðunar að fundurinn með sérfræðingunum myndi staðfesta vaxandi geópólitískt mikilvægi Grænlands og hvers vegna það þjónaði best bandarískum hagsmunum að kanna hvaða tækifæri væru fyrir hendi á svæðinu.

Eldur Ólafsson bendir réttilega á að á Grænlandi hafi „ekki verið ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum Grænlands sem skipta lykilmáli fyrir vestræna hagsmuni“.

Á bandaríska þingnefndarfundinum urðu stjórnmálamenn og fræðimenn jafnan kindarlegir á svipinn þegar minnst var á nýjar norðlægar siglingaleiðir og gömlu bandarísku ísbrjótana tvo annars vegar og um 50 rússneska og tvo til fjóra kínverska hins vegar. „Eins og staðan er í dag hafa aðeins Kína og Rússland getu til að nýta þessar leiðir með sterkum ísbrjótum og sinni strategísku legu,“ segir Eldur.

Hann segir Íslendinga nú standa „frammi fyrir einu stærsta hagsmunamáli sínu: Að tryggja fríverslunarsamning við Grænland.“ Hann vekur máls á aðgerðum til að skapa sterkari tengsl og samvinnu við Grænlendinga. Íslendingar eigi að grípa það tækifæri sem hefur myndast undanfarið og var til dæmis rætt í bandarísku þingnefndinni 12. febrúar.

Grænlendingar ganga til þingkosninga 11. mars nk. Að þeim loknum skýrist hvort þeir gangi fljótlega til þjóðaratkvæðagreiðslu um aukið sjálfstæði. Allt snertir þetta íslenska hagsmuni miklu – þeirra verðum við að gæta ekki síður en Bandaríkjamenn sinna.